Lýstar kröfur í þrotabú Optima ehf., sem lýst var gjaldþrota í desember eftir 68 ára rekstur, námu 660 milljónum króna en þar af voru veðkröfur 388,5 milljónir króna að því er fram kemur í Lögbirtingablaðinu.

Þar segir að skiptum sé lokið og nánast engar eignir hafi fundist í búinu utan veðsettar eignir sem var úthlutað til veðhafa. „Aðrar eignir dugðu ekki fyrir skiptakostnaði og var því skiptum lokið með vísan til 155. gr. gjaldþrotalaga,“ segir í tilkynningu skiptastjóra.

Optima var stofnað árið 1953 og hafði verið rekið á sömu kennitölu frá upphafi. Félagið var það fyrsta hér á landi til flytja inn og selja ljósritunarvélar en seldi auk þess margskonar skrifstofu- og prentvörur.

Í ársreikningi Optima fyrir árið 2020 kom fram að Covid-19 hafi haft umtalsverð áhrif reksturinn þar sem tekjur vegna notkunar á tækjum í útleigu drógust verulega saman. Eigið fé félagsins í árslok 2020 var neikvætt um 226 milljónir króna og gerður var fyrirvari í ársreikningnum um að skammtímaskuldir væru 146 milljónum króna hærri en veltufjármuni. Því hafi félagið þurft á endurfjármögnun lána að halda á árinu 2021, ella væri vefi um rekstrarhæfi félagsins.