Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús ohf. tapaði 162,2 milljónum króna eftir skatta árið 2021 samanborið við 184,7 milljóna tap árið áður. Heildartekjur félagsins á árinu 2021 voru 783 milljónir króna samanborið við 514 milljónir árið á undan. Tekjur tónlistar- og ráðstefnuhússins námu 1.210 milljónum árið 2019. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu en aðalfundur Hörpu var haldinn á miðvikudaginn. .
Þá fékk félagið rekstrarframlag frá eigendum, ríkissjóði og Reykjavíkurborg, að fjárhæð 450 milljónir auk tekjufærðs mismunar vegna fjármögnunarsamnings að fjárhæð 25,3 milljónir. Í ár líkt og árið 2020 lögðu eigendur til sérstakt viðbótarframlag – síðastliðið ár að upphæð 284,5 milljónir króna - til að mæta áhrifum Covid á kjarnastarfsemi Hörpu. Alls nam rekstrarframlagið á síðasta ári 785 milljónum.
Rekstrarkostnaður Hörpu nam 1.455 milljónum. Húsnæðiskostnaður Hörpu var 595 milljónir króna sem vegur um 41% af rekstrarkostnaði. Hlutur fasteignagjalda í þessum kostnaðarlið er 3010 milljónir króna eða ríflega helmingur.
Eigið fé samstæðunnar nam 10.953 milljónum króna í árslok 2021 og er eiginfjárhlutfallið 33%.
Viðburðahald náði 60% af umfangi 2019
Haldnir voru 867 viðburðir í Hörpu í fyrra samanborið við 500 árið 2020. Að jafnaði voru því 17 viðburðir á viku á síðasta ári sem er um 60% af viðburðahaldi ársins 2019.
Haldnir voru 465 listviðburðir; tónleikar, leiksýningar og listsýningar. Sinfóniuhljómsveit Íslands hélt þar af 75 tónleika. Listviðburðir Íslensku óperunnar voru alls níu talsins. Í Hörpu voru haldnar 324 ráðstefnur, fundir og veislur samanborið við 141 slíka viðburði árið á undan.
Sjá einnig: Þétt bókunarstaða hjá Hörpu
Um 124 þúsund aðgöngumiðar seldust á síðasta ári samanborið við um 65 þúsund árið 2020 en miðafjöldi árið 2019 var 232 þúsund. Heildarvelta miðasölu á árinu nam um 685 milljónum króna samanborið við 301 milljón króna árið 2020 og 1.294 milljónir króna á árinu 2019.
Svanhildur Konráðsdóttir forstjóri Hörpu:
„Okkur miðar mjög í rétta átt bæði í rekstri og starfsemi og ég er bjartsýn á framhaldið. Það hefur verið gríðarlega mikill lærdómur að stýra starfsemi og viðburðum í húsinu á tímum síbreytilegra samkomutakmarkana. Margir viðburðir, jafnt listviðburðir og þeir sem tengjast atvinnulífinu voru jafnframt sendir út í einhverju formi. Það fyrirkomulag er komið til að vera og við höfum innleitt tækni og þekkingu í húsinu sem er á heimsmælikvarða. Við höfum jafnframt umbylt jarðhæð Hörpu og hafið samstarf við nýja rekstraraðila þar sem áhersla hefur verið lögð á að fjölbreytt þjónusta endurspegli kjarnastarfsemina og þau gæði sem Harpa stendur fyrir.
Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, endurkjörin formaður stjórnar Hörpu:
„Í Hörpu felast ótrúleg tækifæri til verðmætasköpunar fyrir íslenskt samfélag. Menningarlegu verðmætin eru óumdeild á meðan önnur verðmæti felast í því að skapa forsendur fyrir árangri á ýmsum sviðum samfélagsins, öllum til hagsbóta. Hörpu er ætlað stórt hlutverk í íslensku samfélagi á komandi misserum og mikilvægt er að hvert tækifæri sé nýtt.”
Á aðalfundi Hörpu var María Rut Reynisdóttir kjörin ný í stjórn en Arna Schram stjórnarmaður féll frá í ársbyrjun 2022. „Hennar framlag til stjórnarstarfa hjá Hörpu var dýrmætt og er mikils metið af öllum sem störfuðu með henni á vettvangi Hörpu,“ segir í tilkynningu. Stjórnin er að öðru leyti óbreytt og hana skipa; Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir formaður, Árni Geir Pálsson, Aðalheiður Magnúsdóttir og Guðni Tómasson.