*

þriðjudagur, 28. september 2021
Innlent 25. júní 2021 16:56

Átt­föld eftir­spurn hjá Play

Áttföld eftirspurn var í hlutafjárútboði Play en alls bárust tilboð upp á 33,8 milljarða króna í um 4 milljarða hlut í félaginu.

Ritstjórn
Birgir Jónsson, forstjóri Play.
Eyþór Árnason

Play hefur safnað ríflega 4 milljörðum króna í hlutafjárútboði sem lauk klukkan fjögur síðdegis í dag. Áttföld eftirspurn var í útboðinu en alls bárust tilboð upp á 33,8 milljarða króna í hluti í félaginu. Um 4.600 skráðu sig fyrir hlutum í útboðinu. Kaupendur í útboðinu eignast samtals nærri þriðjungshlut í félaginu.

Alls bárust boð í áskriftarleið A upp á um 6,7 milljarða króna en 27 milljarða króna í áskriftarleið B.

Áskrifendur í áskriftarleið A greiða 18 krónur fyrir hvern hlut, sem námu upp að 20 milljónum króna. Verðið í áskriftarleið B var 20 krónur á hlut, sem var við efri mörk áskriftarbilsins sem nam 18-20 krónum á hlut. Í áskriftarleið B voru áskriftir yfir 20 milljónum króna. Útboðið hófst í gær, sama dag og fyrsta flug félagsins fór í loftið.

Í tilkynningu frá Play kemur fram að nú taki við að fara yfir tilboð og taka ákvörðun um hvernig hlutum verði úthlutað. Búist er við að niðurstaða þess ferlis verði tilkynnt mánudaginn 28. júní.

Stefnt er af því að viðskipti hefjist með Play á First North markaði kauphallarinnar þann 9. júlí.

Í tilkynningunni er haft eftir Birgi Jónssyni, forstjóra Play að um sögulega stund sé að ræða. Starfsfólk félagsins hafi unnið þrekvirki að undanförnu. Félagið ætli að nýta sér þau tækifæri sem myndist á flugmarkaðnum eftir COVID. Þá bætist tilkynning ríkisstjórnarinnar í dag um afnám samkomutakmarkana við gleðifréttir dagsins. „Ég tel að það gefi okkur tilefni til bjartsýni og geri okkur kleift að hefja endurreisn ferðaþjónustu á Íslandi," er haft eftir Birgi.

Fréttin verður uppfærð.

Stikkorð: Play