Tvær eyjur í karabíska hafinu, sem voru í einkaeigu Jeffrey Epstein, hafa lækkað töluvert í verði frá því að þær voru fyrst auglýstar til sölu. Þetta kemur fram í grein hjá Wall Street Journal.

Einkaeyjurnar voru upprunalega til sölu á 125 milljónir Bandaríkjadala, eða 16 milljarða króna, en þær eru hluti af Bandarísku Jómfrúareyjunum og kallast Great St. James og Little St. James. Verðið hefur nú lækkað um 12% og eru eyjarnar settar á 110 milljónir dala, eða 14 milljarða króna, en Epstein keypti Little St. James á tæplega 8 milljónir dala árið 1998 og Great St. James á 22,5 milljónir dala árið 2016.

Sjá einnig: Epstein eyjurnar til sölu á 16 milljarða

Eyjurnar ná yfir rúmlega 90 hektara svæði. Á minni eyjunni má meðal annars finna fjórar gestavillur, þyrlupall, tvær sundlaugar og þrjár strandir. Allur ágóði sölunnar mun nýtast í málskostnað fyrir bú Epstein.

Glæsivillur Epstein til sölu

Búið seldi villu Epstein í Manhattan á 51 milljónir dala í mars 2021. Söluferli á glæsivillu hans í Palm Beach lauk jafnframt í lok árs 2020. Húsið var sett til sölu á tæpar 22 milljónir dala en var keypt á töluverðum afslætti, á 18,5 milljónir dala. Síðan þá hefur húsið verið rifið niður og er stefnt að því að byggja aðra svipað stóra í staðinn.

Meðal annarra eigna Epstein sem eru til sölu er 3.200 hektara búgarður í New Mexico sem er verðlagður á 27,5 milljónir dala.

Epstein var handtekinn og ákærður fyrir mannsal í byrjun árs 2019 og ásakaður um að misnota stúlkur undir lögaldri á umtöluðum eyjum, en fannst látinn í fangaklefa stuttu síðar. Samkvæmt saksóknurum í dómsmáli Epstein er talið að villan í Palm Beach hafi leikið aðalhlutverk í kerfisbundnu barnaníði Epstein.