Sýn segir í ný­birtu upp­gjöri fyrir fyrri hluta ársins að bráða­birgðaákvörðun Fjar­skipta­stofu (FST) um að skylda félagið til að af­henda sjón­varpsút­sendingar sínar til dreifingar hjá Símanum skapi ákveðna óvissu.

Félagið hefur þegar kært ákvörðunina til úr­skurðar­nefndar fjar­skipta- og póst­mála og krefst bæði ógildingar og stöðvunar réttaráhrifa á meðan málið er til með­ferðar.

Ágreiningurinn hófst í júlí þegar Síminn krafðist þess að FST skyldi Sýn til að af­henda bæði opnar línu­legar sjón­varps­rásir og læstar íþróttarásir, meðal annars með út­sendingum frá enska boltanum, til dreifingar um IPTV-mynd­lykla og smá­for­rit Símans.

FST féllst á kröfuna 30. júlí með vísan til þess að Síminn gæti orðið fyrir „veru­legu fjár­tjóni“ ef til að­gerða væri ekki gripið.

„Bráðabirgðaúrskurður Fjarskiptastofu um flutning á sjónvarpsútsendingum Sýnar, sbr. skýring nr. 12, skapar ákveðna óvissu og verða áhrif hans metin þegar frekari upplýsingar liggja fyrir,” segir í uppgjöri Sýnar.

Ákvörðunin gildir til allt að 1. septem­ber 2026 en Sýn kærði hana strax til úr­skurðar­nefndar fjar­skipta- og póst­mála og krefst ógildingar og stöðvunar réttaráhrifa.

Sýn heldur því fram að ákvörðunin sé bæði ólög­mæt og illa undir­búin.

Félagið segir að með því að fram­lengja fyrri dreifingar­samning ein­hliða hafi það af­stýrt þeim „bráða vanda“ sem FST byggði ákvörðun sína á.

„Sýn heldur því fram að laga­skil­yrði fyrir töku bráða­birgðaákvörðunar hafi verið brostin, sér­stak­lega eftir að Sýn fram­lengdi ein­hliða fyrri dreifingar­samning og af­stýrði þannig þeim „bráða vanda“ sem krafan byggði á. Þá er því haldið fram að máls­með­ferð FST hafi brotið gegn grund­vallar­reglum stjórnsýsluréttar, þar á meðal rannsóknar­reglu, meðal­hófs­reglu og and­mælarétti, þar sem ákvörðunin hafi verið byggð á gögnum sem Sýn fékk ekki tækifæri til að and­mæla og að stofnunin hafi sýnt af sér hlut­drægni,” segir í uppgjöri Sýnar.

Efnis­lega heldur Sýn því fram að FST hafi rangtúlkað ákvæði fjölmiðla­laga, einkum um jafn­ræði og hvað teljist „eðli­leg og sann­gjörn“ beiðni um flutnings­rétt í ljósi nýrrar tækni (OTT) sem Sýn býður öllum á jafn­ræðis­grund­velli.

Auk þess segir Sýn að kostnaður við út­sendingarétt á enska boltanum og öðrum er­lendum íþrótta­viðburðum falli að mestu á seinni hluta ársins.

Því megi búast við hærri kostnaði á þriðja og fjórða árs­fjórðungi, en félagið bendir á að sala áskrifta í júlí hafi farið fram úr væntingum þegar enski boltinn hófst á ný.

Sýn undir­strikar þó að ef ákvörðun Fjar­skipta­stofu verður stað­fest geti hún haft áhrif á tekjur og af­komu sjón­varps­rekstrarins til lengri tíma, einkum þar sem félagið byggir rekstrar­líkanið á því að geta selt áskriftir að eigin efni á eigin dreifi­kerfum.

Í upp­færðri af­komu­spá Sýnar fyrir árið 2025 er nú gert ráð fyrir að EBIT­DA­aL verði á bilinu 4,0–4,2 milljarðar króna, saman­borið við 4,0–4,4 milljarða í fyrri spá.

Fjár­festingar eru nú metnar 3,3–3,5 milljarðar króna í stað 3,8–4,0 milljarða áður.

EBIT-niður­staðan er óbreytt, á bilinu 0,8–1,0 milljarðar króna, en félagið segir að bæði kostnaður vegna endur­mörkunar vöru­merkja og greiðslur vegna enska boltans þrýsti á rekstrar­af­komu á seinni hluta ársins.