Hugbúnaðarfyrirtækið Kaptio hefur ráðið Alondru Silva Munoz sem markaðsstjóra fyrirtækisins. Alondra mun stýra teymi innan Kaptio sem hefur það að markmiði að auka sýnileika og vöxt félagsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Hún hefur sinnt samskiptum og markaðsmálum í um áratug, í fimm löndum og fjölmörgum atvinnugreinum, og hefur starfað hér á landi í nokkur ár.

Árin 2017-2020 stýrði Alondra markaðs- og sölumálum hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Troll Expeditions. Árið 2020 tók hún við starfi sem ráðgjafi og síðar sem markaðsstjóri hjá íslenska menntasprotanum Beedle. Hjá Beedle bar Alondra ábyrgð á innleiðingu á nýrri markaðsstefnu félagsins á alþjóðamörkuðum, og vann m.a. í samstarfi með Microsoft.

Alondra er með B.A. gráðu í málvísindum frá Universidad de Santiago de Chile þar sem hún stundaði jafnframt meistaranám í sama fagi. Þá er hún með M.A gráðu í Ameríkufræðum frá Háskóla Íslands.

Alondra hefur nýlega látið sig innflytjendalöggjöfina á Íslandi varða, þar sem hún hefur bent á það sem betur má fara. Hún var m.a. í viðtali í Kastljósi í gærkvöldi þar sem hún ræddi um þessi mál sem eru henni hugleikin og hún þekkir af eigin reynslu.

Viðar Svansson, framkvæmdastjóri Kaptio:

„Við erum afskaplega glöð að hafa fengið Alondru til liðs við okkur. Kaptio hefur nýtt tímann í heimsfaraldrinum vel í að þróa næstu kynslóð hugbúnaðar í samstarfi við Salesforce og alþjóðlegar ferðaskrifstofur. Lausn sem skapar mikla hagkvæmni í rekstri með því að auka sölu og þjónustu í gegnum sjálfsafgreiðslu. Það er því mikill liðsstyrkur fyrir okkur að fá Alondru til að leiða markaðssetningu á Kaptio þar sem hún hefur mikla reynslu af sölu- og markaðsmálum í greininni og af því að markaðssetja lausnir í samstarfi við stór hugbúnaðarhús á borð við Microsoft.“

Kaptio býður lausn sem stórbætir upplifun við bókanir lengri ferða en viðskiptavinir fyrirtækisins eru stór alþjóðleg fyrirtæki í ferðaþjónustu.