Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur veitt leyfi til markaðssetningar á Mynzepli, hliðstæðu sem Alvotech þróaði við líftæknilyfið Eylea. Lyfið verður notað til meðferðar við augnbotnahrörnun og fleiri sjúkdómum sem valda sjónskerðingu.

Var þetta tilkynnt í dag af Alvotech og samstarfsaðila þess Advanz Pharma, alþjóðlegu lyfjafyrirtæki með höfuðstöðvar í Bretlandi sem markaðssetur lyfseðilsskyld lyf, stungu- og innrennslislyf og lyf við sjaldgæfum sjúkdómum.

„Milljónir Evrópubúa þurfa að takast á við áhrif augnbotnahrörnunar og rétt lyfjameðferð getur skipt sköpum. Markaðsleyfi fyrir Mynzepli þýðir að þessir sjúklingar geta nú fagnað betra aðgengi að hagkvæmari líftæknilyfjum til að meðhöndla sjúkdóma sem leiða til sjónskerðingar,“ segir Joseph McClellan, framkvæmdastjóri rannsókna og framleiðslu hjá Alvotech.

Advanz Pharma fer með einkarétt til markaðssetningar í flestum löndum Evrópu, en að auki hefur Alvotech gert samning við STADA Arzneimittel um rétt til markaðssetningar í Þýskalandi og Biogaran í Frakklandi.

„Markaðsleyfi fyrir Mynzepli er mikilvægur áfangi í áætlunum Advanz Pharma um að auka framboð af hágæða lyfseðilsskyldum lyfjum fyrir sjúklinga í Evrópu,“ segir Nick Warwick, framkvæmdastjóri rannsókna fyrir Advanz Pharma.

Leyfið nær til allra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu en samkvæmt gögnum frá gagnaveitunum Global Data og IQVIA námu áætlaðar tekjur af sölu Eylea í Evrópu á síðasta ári um 370 milljörðum króna.