Í síðari atrennu Skattsins, í máli Þorsteins M. Jónssonar, voru opinber gjöld hans endurákvörðuð fyrir gjaldárin 2012-14 og 2016. Áður hafði heimilisfesti hans verið úrskurðuð inn í landið.

I andmælabréfi Þorsteins var byggt á því að í boðunarbréfi hefði vantað upp á að Skatturinn tæki rökstudda afstöðu til þess hvort Þorsteinn teldist heimilisfastur á Íslandi eða í Lúxemborg þótt þörf hefði verið á því. Í öðru lagi hafi frestur til endurákvörðunar samkvæmt sex ára reglu verið liðinn þar sem rannsókn skattrannsóknarstjóra, eftir að fyrri úrskurðurinn lá fyrir, hafi ekki rofið fyrningu og að sú fyrri hafi ekki verið á valdsviði embættisins þar sem deilt hefði verið um lagatúlkun. Í þriðja lagi hafi Skatturinn litið svo á að um launatekjur væri að ræða en ekki litið svo á að um tekjur af rekstri væri að ræða.

Í úrskurði YSKN nú sagði að vissulega hefði farið betur á því að Skatturinn hefði tekið afstöðu til heimilisfestarinnar í boðunarbréfi sínu en ekki látið nægja að gera það eingöngu í úrskurði sínum. Í ljósi „rækilegrar [fyrri] athugunar“ varð þó ekki talið að Þorsteinn „hafi þurft að fara í grafgötur með afstöðu [Skattsins] til þess hvar heimilisfesti [hans] lægi í skilningi tvísköttunarsamningsins“ milli ríkjanna tveggja. Þá var tekið fram af hálfu nefndarinnar að persónulegir hagsmunir Þorsteins hefðu verið meiri hér á landi þótt fjárhagslegir hagsmunir hafi verið meiri ytra. Líta bæri til þeirra fyrrnefndu við mat á skattalegri heimilisfesti.

Hvað rof á fyrningu varðar var það mat nefndarinnar að upphaf rannsóknar skattrannsóknarstjóra árið 2016 hafi verið innan valdsviðs embættisins þrátt fyrir að málið hafi að verulegu leyti hverfst um lagatúlkun. Að endingu var ekki fallist á að rannsókn á eðli teknanna hefði verið svo áfátt að ógildingu varðaði og stóð úrskurður Skattsins því óhaggaður.

Helstu upphæðir afmáðar

Í birtum úrskurðum á vef YSKN hafa helstu upphæðir verið afmáðar en tekið fram að um „verulegar fjárhæðir“ sé að ræða og að „miklir fjárhagslegir hagsmunir“ séu undir. Má í því samhengi nefna að tekið er fram að hluti greiðslu til Þorsteins árið 2015 hafi verið dráttarvextir ofan á kröfur sem hann ætti á kaupandann. Andvirði þess þáttar í krónum talið var tæplega 26 milljónir. Að auki hafi hann fengið mánaðarlegar 9.250 evrur fyrir ráðgjafarstörf til Vífilfells. Í upphafi boðaði Skatturinn að álag yrði lagt á vanframtalinn skattstofn en féll síðar frá þeirri fyrirætlan.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .