Arctica Finance skilaði 358,8 milljóna króna hagnaði árið 2021, samanborið við 67,9 milljóna hagnað árið 2020. Þóknanatekjur verðbréfafyrirtækisins jukust um 82,5% á milli ára og námu 1.073 milljónum. Stjórn félagsins leggur til að greiddar verði út 343 milljónir í arð í ár. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Arctica.
Rekstrarkostnaður Arctica jókst um 19,4% frá fyrra ári og nam 625 milljónum. Laun og launatengd gjöld voru um 324 milljónir en ársverk voru 17.
Arctica Finance var umsjónaraðili skráningar flugfélagsins Play á First North-markaðinn síðasta sumar. Verðbréfafyrirtækið var einnig ráðgjafi innanlands við 4,5 milljarða króna hlutafjáraukningu Alvotech í byrjun síðasta árs. Þá var félagið einnig ráðgjafi við kaup Nordic Visitor á Iceland Travel. Arctica var Högum innan handar sem tók þátt í hlutafjáraukningu í fasteignaþróunarfélaginu Klasa.
Eignir Arctica Finance námu 796 milljónum í lok síðasta árs, samanborið við nærri 300 milljónir í árslok 2020. Eigið fé félagsins nam 529 milljónum.
Stærstu hluthafar Arctica eru Bjarni Þórður Bjarnason aðstoðarframkvæmdastjóri og Stefán Þór Bjarnason framkvæmdastjóri.