Síldarvinnslan hf. skilaði 1,7 milljarða króna hagnaði á fyrri árshelmingi 2025, samanborið við 1,2 milljarða á sama tímabili í fyrra. Á öðrum ársfjórðungi einum nam hagnaðurinn 700 milljónum króna, eftir að hafa verið neikvæður um 300 milljónir á sama tímabili í fyrra.
Rekstrartekjur námu 10,2 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi og 21,2 milljörðum á fyrri árshelmingi, sem er aukning um rúm 26% frá fyrra ári.
Helstu skýringar á tekjuaukningunni eru sterkari loðnuvertíð, góður gangur í kolmunna- og makrílveiðum og að landvinnsla í Grindavík hafi gengið án truflana.
Í yfirlýsingu forstjórans, Gunnþórs Ingvasonar, kom fram að afkoman væri sterk þrátt fyrir áskoranir en hann segir mikinn tíma og athygli hafi farið í átök um veiðigjöld á tímabilinu „þar sem margt var sagt og mörgu haldið fram með misvísandi hætti, sérstaklega þegar mikið var gert úr meintum ofurhagnaði greinarinnar.“
„Það liggur fyrir að arðsemi eiginfjár í sjávarútvegi er ekki ásættanleg í samanburði við aðrar atvinnugreinar. Í allri umræðu um arðsemi hefur algerlega verið horft fram hjá þeirri miklu fjárbindingu og fjárfestingarþörf sem er í sjávarútvegi umfram margar aðrar greinar.
Stjórnvöld völdu að hafa varnarorð greinarinnar að engu og héldu sínu striki með stórhækkun veiðigjalda en lög þess efnis voru samþykkt á Alþingi 14. júlí síðastliðinn. Verkefni okkar sem störfum í sjávarútvegi næstu misserin er að aðlaga okkur að breyttu umhverfi. Því miður mun hækkun veiðigjalda kalla á aðgerðir hjá fyrirtækjunum, þetta kemur fram í samdrætti í fjárfestingum og hagræðingu í rekstri,“ segir Gunnþór í uppgjörinu.
Samkvæmt árshlutareikningi munu nýju lögin leiða til verulegrar hækkunar veiðigjalda frá og með rekstrarárinu 2026. Breytingarnar ná bæði til bolfisks og uppsjávarfisks og hafa áhrif á alla útreikninga gjaldsins.
Rekstrartekjur námu 10,2 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi og 21,2 milljörðum á fyrri árshelmingi, sem er aukning um rúm 26% frá fyrra ári. Helstu skýringar á tekjuaukningunni eru sterk loðnuvertíð, góður gangur í kolmunna- og makrílveiðum og að landvinnsla í Grindavík hafi gengið án truflana.
Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 2,1 milljarði króna á öðrum ársfjórðungi, sem jafngildir 20,8% af tekjum.
Til samanburðar var EBITDA á sama tímabili í fyrra 0,9 milljarðar króna. Á fyrri árshelmingi 2025 var EBITDA 5,1 milljarður króna, eða 23,9% af tekjum, en var 3,4 milljarðar á sama tímabili 2024.
Heildareignir samstæðunnar námu 130,5 milljörðum króna í lok júní 2025, samanborið við 128,6 milljarða við áramót.
Þar af voru fastafjármunir 109,5 milljarðar og veltufjármunir 21,0 milljarðar. Eigið fé hækkaði í 83,3 milljarða króna í lok júní úr 78,0 milljörðum við áramót og eiginfjárhlutfallið fór úr 60,7% í 63,9%.
Heildarskuldir og skuldbindingar voru 47,2 milljarðar króna í lok tímabilsins og hafa lækkað um 3,4 milljarða frá áramótum. Vaxtaberandi skuldir námu 29,1 milljarði króna og lækkuðu um 4,2 milljarða á fyrri árshelmingi.
Handbært fé frá rekstri nam 6,7 milljörðum króna á fyrri árshelmingi 2025, samanborið við 5,3 milljarða á sama tímabili í fyrra.
Handbært fé í lok júní nam 10,4 milljörðum króna. Fjárfestingahreyfingar voru neikvæðar um 67 milljónir króna og fjármögnunarhreyfingar neikvæðar um 9,1 milljarð króna.