Síldar­vinnslan hf. skilaði 1,7 milljarða króna hagnaði á fyrri árs­helmingi 2025, saman­borið við 1,2 milljarða á sama tíma­bili í fyrra. Á öðrum árs­fjórðungi einum nam hagnaðurinn 700 milljónum króna, eftir að hafa verið neikvæður um 300 milljónir á sama tíma­bili í fyrra.

Rekstrar­tekjur námu 10,2 milljörðum króna á öðrum árs­fjórðungi og 21,2 milljörðum á fyrri árs­helmingi, sem er aukning um rúm 26% frá fyrra ári.

Helstu skýringar á tekju­aukningunni eru sterkari loðnu­vertíð, góður gangur í kol­munna- og makríl­veiðum og að land­vinnsla í Grinda­vík hafi gengið án truflana.

Í yfir­lýsingu for­stjórans, Gunnþórs Ingva­sonar, kom fram að af­koman væri sterk þrátt fyrir áskoranir en hann segir mikinn tíma og at­hygli hafi farið í átök um veiðigjöld á tíma­bilinu „þar sem margt var sagt og mörgu haldið fram með mis­vísandi hætti, sér­stak­lega þegar mikið var gert úr meintum ofur­hagnaði greinarinnar.“

„Það liggur fyrir að arð­semi eigin­fjár í sjávarút­vegi er ekki ásættan­leg í saman­burði við aðrar at­vinnu­greinar. Í allri um­ræðu um arð­semi hefur al­ger­lega verið horft fram hjá þeirri miklu fjár­bindingu og fjár­festingarþörf sem er í sjávarút­vegi um­fram margar aðrar greinar.

Stjórn­völd völdu að hafa varnar­orð greinarinnar að engu og héldu sínu striki með stór­hækkun veiði­gjalda en lög þess efnis voru samþykkt á Alþingi 14. júlí síðastliðinn. Verk­efni okkar sem störfum í sjávarút­vegi næstu misserin er að aðlaga okkur að breyttu um­hverfi. Því miður mun hækkun veiði­gjalda kalla á að­gerðir hjá fyrir­tækjunum, þetta kemur fram í sam­drætti í fjár­festingum og hag­ræðingu í rekstri,“ segir Gunnþór í upp­gjörinu.

Sam­kvæmt árs­hluta­reikningi munu nýju lögin leiða til veru­legrar hækkunar veiði­gjalda frá og með rekstrarárinu 2026. Breytingarnar ná bæði til bol­fisks og upp­sjávar­fisks og hafa áhrif á alla út­reikninga gjaldsins.

Rekstrar­tekjur námu 10,2 milljörðum króna á öðrum árs­fjórðungi og 21,2 milljörðum á fyrri árs­helmingi, sem er aukning um rúm 26% frá fyrra ári. Helstu skýringar á tekju­aukningunni eru sterk loðnu­vertíð, góður gangur í kol­munna- og makríl­veiðum og að land­vinnsla í Grinda­vík hafi gengið án truflana.

Rekstrar­hagnaður fyrir af­skriftir (EBITDA) nam 2,1 milljarði króna á öðrum árs­fjórðungi, sem jafn­gildir 20,8% af tekjum.

Til saman­burðar var EBITDA á sama tíma­bili í fyrra 0,9 milljarðar króna. Á fyrri árs­helmingi 2025 var EBITDA 5,1 milljarður króna, eða 23,9% af tekjum, en var 3,4 milljarðar á sama tíma­bili 2024.

Heildar­eignir sam­stæðunnar námu 130,5 milljörðum króna í lok júní 2025, saman­borið við 128,6 milljarða við áramót.

Þar af voru fasta­fjár­munir 109,5 milljarðar og veltu­fjár­munir 21,0 milljarðar. Eigið fé hækkaði í 83,3 milljarða króna í lok júní úr 78,0 milljörðum við áramót og eigin­fjár­hlut­fallið fór úr 60,7% í 63,9%.

Heildar­skuldir og skuld­bindingar voru 47,2 milljarðar króna í lok tíma­bilsins og hafa lækkað um 3,4 milljarða frá áramótum. Vaxta­berandi skuldir námu 29,1 milljarði króna og lækkuðu um 4,2 milljarða á fyrri árs­helmingi.

Hand­bært fé frá rekstri nam 6,7 milljörðum króna á fyrri árs­helmingi 2025, saman­borið við 5,3 milljarða á sama tíma­bili í fyrra.

Hand­bært fé í lok júní nam 10,4 milljörðum króna. Fjár­festinga­hreyfingar voru neikvæðar um 67 milljónir króna og fjár­mögnunar­hreyfingar neikvæðar um 9,1 milljarð króna.