Netflix segir að streymisveitan hafi fengið til sín 5,9 milljónir nýrra áskrifenda frá mars til lok júní og eru áskrifendur nú samtals 238 milljónir. Þetta eru mun fleiri áskrifendur en búist var við og hefur væntanlega komið í kjölfar herferðar fyrirtækisins gegn samnýtingu lykilorða.

Streymisveitan stendur engu að síður frammi fyrir fjölmörgum áskorunum en stórfellt verkfall stendur nú yfir meðal leikara og handritshöfunda í Bandaríkjunum og mun Netflix koma til með að eyða minni pening í efni nú í ár.

Ted Sarandos, framkvæmdastjóri Netflix, segir að það þurfi að finna lausn á verkfallinu og að fyrirtækið væri staðráðið í því að ná fram réttlátum samningi sem myndi hjálpa iðnaðinum að vaxa. Hann bætti svo við að það væri mikil vinna framundan.

Netflix hefur glímt við mikinn samdrátt í starfsemi sinni eftir heimsfaraldur en meiri samkeppni og bág efnahagsstaða heimila hefur haft mikil áhrif á áskriftartölur. Á fyrri helming síðasta árs missti Netflix tæplega milljón áskrifendur. Streymisveitan náði að bæta upp fyrir það en tapið hafði engu að síður keðjuverkandi áhrif á reksturinn.

Í Bretlandi fengur áskrifendur til að mynda valkost um að greiða aukalega ef þeir vildu deila lykilorði sínu með öðrum en streymisveitan er fáanlega í meira en 100 löndum.

Paolo Pescatore, sérfræðingur hjá PP Foresight, segir að staða Netflix sé mun sterkari í samanburði við keppinauta sína og að streymisveitan bjóði upp á mikið efni á alþjóðavísu. Hann segir hins vegar að herferðin gegn samnýtingu lykilorða sé aðeins skammtíma lausn og að Netflix verði að fínstilla verðlagningu sína á næstu mánuðum til halda velli í framtíðinni.