Laxeldisfyrirtækið Kaldvík tapaði 16,4 milljónum evra, eða sem nemur tæplega 2,4 milljörðum íslenskra króna. Til samanburðar tapaði félagið 6,4 milljónum evra á sama tímabili í fyrra. Þá færði félagið niður spá sína um magn slátraðs fisks í ár.

Kaldvík, sem er skráð á First North-markaðinn, birti árshlutauppgjör í morgun.

Tekjur á fjórðungnum jukust um nærri helming milli ára, úr 5,4 milljónum evra í 7,9 milljónir evra eða sem samsvarar rúmlega 1,1 milljarði króna.

EBIT-afkoma fyrir gangvirðisbreytingar á lífsmassa og framleiðsluskatt var neikvæð um tæplega 4,3 milljónir evra. Félagið færði niður virði lífsmassa um 7,2 milljónir evra en lífrænar eignir (e. biological assets) félagsins námu þó 119 milljónum evra í lok júní, samanborið við 110 milljónir evra í lok mars.

Kaldvík lauk í byrjun sumars við umfangsmikla endurfjármögnun sem felur í sér nýja lánsfjármögnun og 6,6 milljarða króna hlutafjáraukningu. Ísfélagið er meðal stærstu hluthafa Kaldvíkur í gegnum eignarhlut sinn í Austur Holding.

Færa niður spá ársins

Kaldvík slátraði 1.235 tonnum af eldislaxi á öðrum ársfjórðungi og samtals 7.618 tonn á fyrri árshelmingi. Félagið gerir ráð fyrir að slátra 2.300 tonnum á þriðja ársfjórðungi og 8.100 á fjórða ársfjórðungi.

Laxeldisfyrirtækið færði niður spá sína fyrir árið 2025 um 16% og gerir nú ráð fyrr að slátra 18 þúsund tonnum af laxi í ár. Til samanburðar gerði félagið áður ráð fyrir að slátra um 21,5 þúsund tonnum á árinu.