Fjarskiptafélögin Nova og Sýn tilkynntu í gær um undirritun samkomulags um helstu skilmála varðandi framsal á farnetsdreifikerfi félaganna inn í Sendafélagið ehf., sem er í jafnri eigu félaganna.
Greiningarfyrirtækið Akkur segir í fyrstu viðbrögðum við tilkynningunni að um sé að ræða jákvætt skref fyrir bæði félög þar sem þau geta þá samnýtt kerfin og Sendafélagið muni sjá um fjárfestingu og rekstur kerfisins.
Akkur birti sitt fyrsta verðmat á Nova í byrjun sumars og mat þá virði hlutabréfa fjarskiptafélagsins á 7,32 krónur á hlut í lok árs 2025.
Akkur segir að ef breytingarnar sem tilkynnt var um í gær séu settar inn í sjóðsstreymismatið, og öllu öðru haldið óbreyttu, þá hækki niðurstaða verðmats úr 7,32 krónum í 8,81 krónu, eða um 20%. Það er um 80% hærra en 4,88 króna dagslokagengi Nova í gær.
„Einhverjum gæti þótt skrítið að niðurstaða verðmats hækki við það eitt að færa eignir í nýtt félag en hér er um að ræða töluvert rekstrarhagræði þar sem fjárfestingar lækka umtalsvert meira kostnaðaraukinn sem hlýst á móti.“
Frjálst fjárflæði Nova aukist um tæplega 450 milljónir króna ári auk þess sem hreinar vaxtaberandi skuldir lækki um 1.700 milljónir króna.
Í kauphallartilkynningu Nova kom fram að áætluð fjárhagsleg áhrif breytinganna á rekstur Nova á ársgrunni séu að EBITDA muni lækka um 930 milljónir króna árlega þar sem kostnaður Nova hf. vegna dreifikerfisins sem áður færðist í liðina afskriftir og fjármagnskostnað færist yfir í rekstrarkostnað. Áætluð áhrif á EBIT er lækkun um 190 milljónir króna.
Samhliða geri áætlanir ráð fyrir að árlegar fjárfestingar Nova hf. muni lækka um 600 milljónir króna. Eftir að Sendafélagið ehf. hafi lokið endurfjármögnun og gert upp hluthafalán sé gert ráð fyrir að hreinar vaxtaberandi skuldir Nova hf. muni lækka um tæplega 1.700 milljónir króna.
Fyrir liggi að afkoma Sendafélagsins ehf. færist undir liðinn áhrif hlutdeildarfélaga á rekstrarreikningi Nova hf. Samkvæmt núverandi áætlunum verður heildarafkoma þess um 130 milljónir króna á ársgrundvelli á fyrsta rekstrarári.