Allar líkur eru á að vaxtakjörum íbúðalána verði þrepaskipt eftir veðsetningarhlutfalli í meira mæli á næstu árum en verið hefur. Í Evrópustaðlinum Basel III – sem er hluti af bankapakka Evrópusambandsins og til stendur að verði innleiddur á seinni helmingi þessa áratugar – er gerð veigamikil breyting á svokölluðum áhættuvogum íbúðalána.
Vogin fyrir öruggari hluta láns verður lækkuð úr 35% í 20%, en veðsetningarþröskuldurinn fyrir þann hluta lækkar úr 80% í 55%. Sá hluti sem er umfram þröskuldinn ber í dag 100% vog, en samkvæmt nýju reglunum skal hann meðhöndlaður sem lán án trygginga og fengi í flestum tilfellum 75% vog, að því er fram kemur í Fjármálastöðugleika.
Þetta þýðir í stuttu máli að eiginfjárbinding bankanna vegna lána undir 55% veðhlutfalli mun lækka um 43%, en munurinn dregst saman eftir því sem hlutfallið eykst, og bindingarhlutfallið gæti raunar aukist lítillega samkvæmt nýju reglunum í kringum 80% veðhlutfall.
Landsbankinn þegar farinn að prófa sig áfram
Heimildarmenn Viðskiptablaðsins innan bankakerfisins segja breytinguna munu leiða til þess að meiri greinarmunur verði gerður á verðlagningu lána eftir veðhlutfalli, enda mun hún lækka kostnað bankanna af lánum með lægra veðhlutfalli.
Nýju reglunum er ætlað að endurspegla minni útlána- og þar með kerfisáhættu af lægra veðsetningarhlutfalli, enda gefur auga leið að minni veðsetning felur í sér betri tryggingu. Viðmælendur blaðsins telja breytinguna þannig fela í sér sjálfsagðar umbætur sem auka muni skilvirkni kerfisins án þess að bjóða kerfisáhættunni heim. Þrepaskiptari vaxtakjör séu einfaldlega það sem koma skal.
Þótt vænta megi þess að mörg ár séu í innleiðingu og gildistöku nýju reglnanna hér á landi hefur að minnsta kosti einn banki hér á landi, Landsbankinn, þegar hafið að bjóða viðskiptavinum lægri vexti, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sé veðhlutfallið undir 50%. Afslátturinn hefur hins vegar ekki verið auglýstur sérstaklega og kemur ekki fram í lánareiknivél á vef bankans.
Formaður Neytendasamtakanna, Breki Karlsson, segir samtökin sem slík ekki hafa myndað sér skoðun á málinu, en telur sjálfur eðlilegt að vaxtakjör endurspegli útlánaáhættu með þessum hætti. „Verð á fjármagni ætti að endurspegla áhættuna.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .