„Sjálfur jólasveinninn talaði um daginn og veginn og kallaði sig Guðmund Jósafatsson frá Austurhlíð. Hann valdi sér að umtalsefni féþyngd og ljóðagerð og virtist dável heima í báðum þessum listgreinum“.

Ofangreind orð eru úr fjölmiðlarýni sem Steinn Steinarr skáld skrifaði í Alþýðublaðið á sínum tíma. Þau komu upp í hugann þegar fylgst var með fréttum vikunnar og þá í samhengi við þá áleitnu spurningu af hverju fjölmiðlar telja það fréttnæmt þegar sumt fólk tjáir sig um málefni sem það hefur enga sérstaka þekkingu á.

***

Þannig var helsta frétt Ríkisútvarpsins síðastliðinn laugardag að Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, teldi að efnahagsleg áhrif hertra sóttvarnaraðgerða yrðu jákvæð. Þetta hlýtur að hafa komið þeim tugþúsunda einstaklinga sem eiga hagsmuna að gæta í íslenskri ferðaþjónustu spánskt fyrir sjónir. Eins og flestir vita er Kári taugalæknir að mennt og ekki fylgdi fréttinni nein greining á skoðun hans á meintum jákvæðum efnahagslegum áhrifum af hertum sóttvarnaraðgerðum.

Upptakturinn að hertum sóttvörnum var sleginn af Gylfa Zoëga , sérfræðingi í vinnumarkaðshagfræði, í grein sem birtist í Vísbendingu fyrir tveimur vikum. Þar fjallaði hann um sóttvarnaaðgerðir og lýsti þeirri skoðun sinni að það hefðu verið afdrifarík mistök að létta á þeim snemmsumars. Rökin voru þau að fórnarkostnaðurinn við veirusmit væri meiri en mögulegur ábati af komu ferðamanna. Annar hagfræðingur, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, steig fram í kjölfarið og sagðist hafa reiknað upp á krónu hver raunkostnaðurinn við skimun ferðamanna væri. Í ljósi þeirrar fullkomnu óvissu sem ríkir um framgang heimsfaraldursins er furðulegt að fjölmiðlamenn hafi ekki krafið hagfræðingana um skýrari rökstuðning fyrir þessum skoðunum og að aðrir sérfróðir hafi ekki stigið fram og varpað sinni sýn á málin. Rétt er að taka fram að á sama tíma þegar fjölmiðlar gerðu sér mat úr skoðunum Gylfa og Tinnu bárust fréttir af því að veiran væri tekin á ný að dreifa sér í ríkjum borð við Nýja-Sjáland þar sem í gildi hafa verið strangar reglur um komu ferðamanna.

***

Þar sem að fjölmiðlamenn virðast hafa mikinn áhuga á skoðunum taugalækna á efnahagsmálum og hagfræðinga á sóttvarnamálum kemur á óvart að enginn hafi nýtt tækifærið á daglegum blaðamannafundum Almannavarna og spurt annaðhvort Ölmu Möller landlækni eða Þórólf Guðnason sóttvarnalækni um skoðun þeirra á síðustu vaxtaákvörðun Seðlabankans.

***

Það er oft löstur á fjölmiðlum að þeir vanrækja að kanna og fjalla um gögn sem liggja að baki ákvörðunum stjórnvalda. Þannig var lítið fjallað um minnisblað fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem lá að baki ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að herða sóttvarnaaðgerðir í síðustu viku. Í stuttu máli er minnisblaðið hálfgerð hrákasmíð og undrun vekur að ekki hafi verið ráðist í metnaðarfyllri vinnu áður en jafn afdrifarík ákvörðun var tekin.

Í fyrsta lagi eru færð rök fyrir frekari takmörkunum á komum ferðamanna með því að vísa í einhverja ótilgreinda bandarískra skýrslu um kostnað við hvert veirusmit. Sá sem les minnisblaðið er í engri aðstöðu til að glöggva sig á hvað liggi að baki þeim útreikningum og hvað þá að fletta upp í skýrslunni og kanna hvaða gagnrýni hún kann að hafa fengið.

Í annan stað eru hertari sóttvarnaaðgerðir rökstuddar í minnisblaðinu með því að bera saman innlenda neyslu í sumar saman við einfalt meðaltal neyslu erlendra ferðamanna hér á landi. Þetta er gert án þess að taka tillit til áhrifa launahækkana í sumar og þeirri staðreynd að innlend neysla á þessu sumri markast sennilega af því að heimilin voru að miklu leyti að eyða sjóðunum sem til stóð að eyða á Tenerife og vafalaust hafa bæði einstaklingar og fyrirtæki verið að einhverju leyti að ganga á varasjóði sína. Fátt bendir til þess að sami kraftur verði á innanlandsneyslu með lækkandi sól. Fjölmiðlar hljóta á endanum að fjalla um þetta minnisblað og kalla eftir skoðunum sérfróðra um efni þess.

***

Þriðjudaginn 11. ágúst birtist frétt Þórhildar Þorkelsdóttir í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins um unga konu sem hafði sýkst af kórónuveirunni og óttaðist að sýkjast aftur þar sem mælingar höfðu ekki fundið mótefni gegn veirunni í líkama hennar. Daginn eftir sá áðurnefndur Þórólfur sóttvarnalæknis ástæðu til þess að gera athugasemdir við fréttaflutninginn og gagnrýndi það að fréttamaðurinn hefð ekki borið þetta undir sérfræðinga og benti á að þeir sem smitast af veirunni verða ónæmir þrátt fyrir að mótefni mælist ekki.

Vissulega er ábyrgð fjölmiðla mikil þegar kemur að fréttaflutningi af veirunni. En það sem er ekki síst áhugavert við málið er að sóttvarnalæknir – sem maður ætlar að sé ekki verkefnalaus þessa dagana – þarf að taka að sér leiðrétta fréttaflutning. Ekki síst í ljósi þess að sjálft þjóðaröryggisráð Íslands setti á fót vinnuhóp til að kortleggja birtingarmyndir og umfang upplýsingaóreiðu í tengslum við COVID -19 hér á landi og gera tillögur um aðgerðir til þess að sporna gegn henni. Vinnuhópurinn hefur greinilega verið upptekinn við annað þegar þessi frétt birtist.

***

Á fimmtudaginn birtist í Fréttablaðinu áhugaverð umfjöllun Þorsteins Friðriks Halldórssonar blaðamanns um áhrif heimsfaraldursins á viðskiptaferðalög og vinnutengd ferðalög sem eðli málsins samkvæmt hefur fækkað til muna undanfarin misseri. Fróðlegt væri að sjá frekari umfjöllun um þessi mál og þá ekki síst hvort ástandið hafi leitt til stefnubreytinga hjá ríki og borg í þessum efnum. Sem kunnugt er þá hafa embættismenn og stjórnmálamenn lengi verið duglegir að leggja land undir fót og í ljósi frétta fyrir nokkrum misserum að þeir væru margir illa þjáðir af einhverju sem kallast „flugviskubit“.

***

Þann 13. ágúst birti Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skýrslu (ekki vinnugagn) þar sem meðal annars fram kom að hlutfall fyrstu kaupenda á fyrri helmingi þessa árs hefur aldrei verið hærra svo langt aftur sem gögn ná en á fyrstu tveimur ársfjórðungum var hlutfall þeirra 30% og 28%. Þetta eru merkilegar tölur og fjölluðu fjölmiðlar vissulega um málið. Þróunin var sett í samhengi við myndarlegar vaxtalækkanir Seðlabankans á þessu ári. Fleiri þættir kunna hins vegar að skýra málið og hefði verið áhugavert að sjá umfjöllun um þá. Er til að mynda útilokað að ungt fólk hafi ákveðið að flýja út úr foreldrahúsum eftir fullmikla samveru með fjölskyldunni í samkomubanninu?

***

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins á mánudag var í fréttayfirliti haft eftir Bjarni Benediktssyni fjármálaráðherra að hegðun iðnaðar- og ferðamálaráðherra á laugardaginn hefði verið óheppileg. Og í lok fréttatímans heyrðist eftirfarandi: Það var helst í hádegisfréttum að formaður Sjálfstæðisflokksins segir óheppilegt að varaformaður flokksins og ferðamálaráðherra hafi farið út að skemmta sér með vinkonum sínum á laugardag“. Gallinn við þessa framsetningu er sá að fjármálaráðherra sagði þetta ekkert í viðtalinu sem flutt var í fréttatímanum. Hann sagði eftirfarandi: „Ég held að ráðherrann hafi svo sem svarað fyrir þetta, að það hafi verið óheppilegt að það væri einhver vafi um það hvort öllum reglum hafi verið fylgt.“ Á þessu er töluverður munur og það má velta fyrir sér afhverju ummæli ráðherrans eru afbökuð með þessum hætti í kynningu og afkynningu fréttarinnar?

***

Á samfélagsmiðlum sáust þau tíðindi að álitsgjafi sem hefur verið gagnrýninn á framgöngu verkalýðshreyfingarinnar í kjaramálum veiddi maríulaxinn í Haffjarðará á dögunum. Furðu vekur að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR , né Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, fordæmdu ekki verknaðinn — ekki enn.

Nýr fjölmiðlarýnir

Örn Arnarson hefur tekið við fjölmiðlarýni Viðskiptablaðsins en þessi fasti efnisþáttur hefur birst í blaðinu frá árinu 2004. Örn hefur áratuga reynslu af blaðamennsku og störfum á fjármálamarkaði. Hann var meðal annars blaðamaður og fréttastjóri á Viðskiptablaðinu á sínum tíma og starfaði einnig sem viðskiptablaðamaður á Morgunblaðinu. Þá hefur hann starfað í fjármálafyrirtækjum og síðast var starfaði hann sem sérfræðingur hjá Samtökum fjármálafyrirtækja. Örn er með meistaragráðu í alþjóðamálum og hagfræði frá School of Advanced Studies í Washington D.C .