Viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna hefur fært Rússland úr flokki markaðsríkja (e. market economy) yfir í flokk þeirra landa hvers hagkerfi lýtur ekki markaðslögmálum (e. nonmarket country). Wall Street Journal greinir frá.

Ráðuneytið sagði að ákvörðunin komi í kjölfar síaukinna inngripa stjórnvalda í Moskvu inn í rússneskt efnahagslíf frá því á síðasta ári. Þær aðgerðir hafi gert rússneska hagkerfið óútreiknanlegt og brenglað, þar á meðal í samhengi við gjaldeyrismarkað, vinnumarkað og þegar kemur að erlendum fjárfestingum.

Rússland bætist nú í framangreindan hóp með ellefu öðrum þjóðum sem Bandaríkin nota við útreikning á undirboðstollum. Meðal annarra þjóða á listanum eru Kína, Víetnam og fyrrum sambandslýðveldi Sovétríkjanna. Rússland var fjarlægt af listanum árið 2002 eftir að hafa tekið skref í átt að frjálsara hagkerfi.

Í umfjöllun WSJ segir að tilfærslan geti leitt til hærri tolla á innflutning frá Rússlandi og þannig gert rússneskum fyrirtækjum erfitt fyrir að selja vörur á borð við stál og ál í Bandaríkjunum. Áhrifin verði þó sennilega takmörkuð þar sem innflutningur Bandaríkjanna frá Rússlandi hefur dregist verulega saman á síðustu mánuðum vegna viðskiptaþvingana.

Innflutningur Bandaríkjanna á rússneskum vörum nam 12,5 milljörðum dala á fyrstu níu mánuðum ársins, sem er um helmingi minni en á sama tímabili í fyrra.