Bandarísk stjórnvöld hafa staðfest samningaviðræður við Intel um að eignast 10% hlut í fyrirtækinu. Samningurinn myndi meðal annars fela í sér að skipta út núverandi ríkisstyrkjum fyrir hlutabréf í örgjafaframleiðandanum.

Á vef BBC segir að Karoline Leavitt, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, hafi staðfest viðræðurnar og sagt að Bandaríkjaforseti vilji setja Bandaríkin í fyrsta sæti.

Greint var frá viðræðunum í síðustu viku en aðild bandarískra stjórnvalda myndi hjálpa Intel sem á nú í harðri samkeppni við fyrirtæki eins og Nvidia, Samsung og TSMC á sífellt vaxandi örgjafamarkaði.

Samningurinn myndi jafnframt hjálpa Intel að byggja upp framleiðslumiðstöð sem fyrirtækið áformar að opna í Ohio í Bandaríkjunum. Intel hefur ekki viljað tjá sig beint um viðræðurnar en hefur sagt að það væri staðráðið í að styðja við viðleitni Donalds Trumps.