Hlutabréf í stærstu bönkum Bretlands féllu skarpt í morgun en fjárfestar óttast að ríkisstjórnin ætli að hækka skatta á bankageirann í haust til að mæta fjárlagahalla sem er talinn nema að minnsta kosti 20 milljörðum punda.
Í frétt Financial Times segir að bæði sérfræðingar og bankastjórar telji líklegt að fjármálaráðherra Bretlands muni í haust kynna annaðhvort hærri álag á hagnað eða nýjan sérstakan bankaskatt.
Hlutabréf í NatWest féllu um 5,3% í viðskiptum í London í morgun, Lloyds Banking Group lækkaði um 5,2% og Barclays tapaði 3,8%. Þessi þrjú fjármálafyrirtæki leiddu þar með lækkanir í FTSE 100-vísitölunni.
Lækkunin hófst eftir að hugveitan IPPR lagði til nýjan skatt á bankageirann í skýrslu sinni og að Financial Times greindi frá málinu í morgun.
„Fjármálaráðherrann hefur hingað til talað um að bankar séu lykill að hagvexti, en þrýstingurinn er mikill á að finna tekjur og bankar eru pólitískt þægilegt skotmark,“ sagði Benjamin Toms, greiningaraðili hjá RBC.
Í fréttinni er haft eftir háttsettum bankamönnum að slík skattahækkun gæti skaðað markmið ríkisstjórnarinnar um hagvöxt, en þeir viðurkenna jafnframt að pólitískt sé þetta einfalt mál fyrir stjórnvöld.
Angela Rayner, varaforsætisráðherra og þingmaður Verkamannaflokksins, lagði í vor til að hækka fyrirtækjaskatt bankanna úr 28% í 30%.
Aðrir þingmenn flokksins hafa lýst yfir stuðningi við hugmyndir um aukna skattlagningu á bankageirann til að sýna að „sársaukinn“ verði jafnt borinn af öllum.
Framkvæmdastjórar stærstu bankanna hafa nýlega varað við aukinni skattbyrði.
Charlie Nunn, forstjóri Lloyds, sagði eftir birtingu uppgjörs bankans að auknir skattar „væru ekki í takt við stefnu stjórnvalda um að örva hagvöxt“
Paul Thwaite hjá NatWest sagði að „sterk hagkerfi þurfi sterka banka“.
CS Venkatakrishnan, forstjóri Barclays, minnti á að fjármálafyrirtæki væru nú þegar „meðal stærstu skattgreiðenda í Bretlandi“.
Fram kemur að skattahækkanir myndu ráðast af því hversu stór fjárlagahallinn verður samkvæmt væntanlegum spám Fjárlagaeftirlitsins (OBR). Enn ríkir mikil óvissa um þær tölur.
Ríkisstjórnin vill forðast að kæfa hagvöxt
Rachel Reeves fjármálaráðherra Bretlands hefur sagt að hún vilji forðast að skattar á „framleiðandi hluta efnahagsins“ verði of þungir.
Í tilkynningu sagði fjármálaráðuneytið í gær að meginmarkmiðið væri að styrkja hagkerfið með hagvexti fremur en sífellt hærri sköttum.
Samtök fjármálaþjónustu í Bretlandi, UK Finance, segja hins vegar að frekari skattlagning myndi „gera Bretland ókeppnishæfara á alþjóðavettvangi og ganga gegn stefnu stjórnvalda um að laða að fjárfestingu í landinu“.