Brim hefur í samstarfi við Skeljung unnið að innleiðingu stafrænna BDN afgreiðsluseðla við olíuafgreiðslu til skipa. Um áratugaskeið hafa svokallaðir BDN-seðlar (e. Bunker Delivery Note) verið handskrifaðir sem getur skapað villuhættu í afgreiðslu.
Með innleiðingu stafræns BDN afgreiðsluseðils mun afgreiðsla á olíu til skipa einfaldast til muna þar sem stafrænar upplýsingar flæða á milli aðila í rauntíma þegar viðskiptavinurinn staðfestir móttöku með rafrænum og pappírslausum hætti.
„Það er alltaf ánægjulegt að taka þátt í verkefnum tengdum stafrænni þróun og sjá hlutina raungerast. Í byrjun þessa árs ákváðu félögin að fara í þessa vegferð saman þar sem markmiðið var að einfalda og nútímavæða verkferil við olíuafgreiðslu til skipa,“ segir Ingólfur Steingrímsson, forstöðumaður innkaupa og rekstrareftirlits hjá Brimi.
Í tilkynningu segir að nýi stafræni BDN afgreiðsluseðillinn muni uppfylla lagalegar skyldur ásamt því að vera mikilvægt skjal til að tryggja áreiðanleika upplýsinga um gæði og afhent magn eldsneytis.
„Það hefur verið virkilega ánægjulegt að eiga samstarf við Brim um þessa nýju lausn og við stefnum á áframhaldandi þróun á stafrænum lausnum fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi,“ segir Þórður Guðjónsson, forstjóri Skeljungs.