Kynningarfundur Seðlabanka Íslands um ákvörðun peningastefnunefndar hefst kl. 9:30 í dag en hægt er að fylgjast með fundinum í beinni hér að neðan.

Á kynningunni verður farið yfir ákvörðun peningastefnurnefndar um að halda meginvöxtum bankans óbreyttum í 7,5% og kynnt efni nýútkomins rits Peningamál.

Allir nefndarmenn studdu ákvörðunina en verðbólga mældist 4% í júlí.

Í nýrri spá Seðlabankans er þó gert ráð fyrir að verðbólga aukist tímabundið á næstu mánuðum áður en hún taki að hjaðna að nýju á næsta ári. Bankinn bendir á að óvissa um verðbólguhorfur sé enn talsverð.

Í tilkynningu nefndarinnar segir að hægt hafi á vexti innlendrar eftirspurnar í takt við þétt taumhald peningastefnunnar. Spennan í þjóðarbúinu hafi því minnkað, sem birtist meðal annars í hægari umsvifum á húsnæðis- og vinnumarkaði.

Samt sem áður sé enn nokkur þróttur í efnahagslífinu, laun hafi hækkað mikið og verðbólguvæntingar séu enn yfir markmiði bankans.

Á kynningunni gera Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri og formaður peningastefnunefndar, Þórarinn G. Pétursson, varaseðlabankastjóri peningastefnu og Karen Áslaug Vignisdóttir, aðalhagfræðingur og framkvæmdastjóri sviðs hagfræði- og peningastefnu, grein fyrir yfirlýsingu peningastefnunefndar og kynna efni Peningamála.