Joe Biden Bandaríkjaforseti sagðist í gær vilja sækjast eftir endurkjöri í forsetakosningunum árið 2024. Hann hyggst taka endanlega ákvörðun um hvort hann fari fram í snemma á næsta ári.

„Okkar áform eru að fara fram aftur. Það hafa verið okkar áform, sama hver úrslit þessara kosninga yrðu,“ sagði Biden við fréttamenn. Hann hyggst ræða forsetaframboðið nánar við eiginkonu sína Jill á milli þakkargjörðarinnar og jóla.

Demókratar hafa komið talsvert betur út en búist var við í miðkjörstímabilskosningunum í Bandaríkjunum, þar sem kosið er í öll sæti fulltrúadeildar og laus sæti í öldungadeild bandaríska þingsins. Allt bendir til þess að Repúblikanar nái meirihluta í fulltrúadeildinni en mjótt er á munum um meirihluta öldungadeildarinnar.

Kosningaúrslitin bæta stöðu Joe Biden fyrir næstu forsetakosningarnar. Miklar efasemdir eru þó uppi um mögulegt framboð Biden, sem verður áttræður síðar í mánuðinum, en stuðningur við hann hefur mælst mjög lágur.

Samkvæmt útgönguspám miðkjörstímabilskosninganna vilja fleiri en tveir af hverjum þremur Bandaríkjamönnum að Biden bjóði sig ekki fram aftur.