Skógarböð ehf., félag utan um samnefnt baðlón á Akureyri við rætur Vaðlaheiðar, hagnaðist um 210 milljónir króna á árinu 2024 samanborið við 153 milljóna hagnað árið 2023. Hagnaður félagsins jókst um 37% milli ára.

Velta Skógarbaða jókst um 200 milljónir króna eða 25,4% milli ára og nam 987 milljónum króna í fyrra. Rekstrargjöld jukust um 25,3% og námu 676 milljónum. Þar af voru laun og tengd gjöld 331 milljón en ársverk voru 28, samanborið við 25 árið áður.

Rekstrarhagnaður (EBIT) félagsins fór úr 247 milljónum í 311 milljónir króna milli ára.

Eignir Skógarbaða ehf. voru bókfærðar á 1,5 milljarða króna í árslok 2024, en þar af voru fasteignir félagsins metnar á 1,2 milljarða. Eigið fé var um 831 milljón og langtímaskuldir 348 milljónir.

Metið á tæplega 3 milljarða króna

Ein breyting varð á hluthafalista Skógarbaða í fyrra. Höldur – baðfélag ehf., systurfélag Hölds – Bílaleigu Akureyrar, seldi 10% hlut sinn í Skógarböðum fyrir 290 milljónir króna samkvæmt ársreikningi félagsins. Söluhagnaður Hölds – baðfélags nam 240 milljónum króna.

Miðað við ofangreint var virði Skógarbaða ehf. metið á 2,9 milljarða króna í viðskiptunum.

Hlutur Bjarnasonar Holding ehf., fjárfestingarfélags Birkis Bjarnasonar knattspyrnumanns, stækkaði úr 13% í 20% milli ára og má því ætla að hann hafi verið stærsti aðilinn á kauphliðinni. Í ársreikningi Bjarnasonar Holding kemur fram að félagið hafi fjárfest fyrir 211 milljónir króna í fyrra, sem gera má ráð fyrir að tengist að mestu ofangreindum kaupum í Skógarböðum.

N10b ehf., félag hjónanna Finns Aðalbjörnssonar og Sigríðar Maríu Hammer, er eftir sem áður stærsti hluthafi félagsins með tæplega 58% hlut.

Meðal annarra hluthafa eru rafverktakafyrirtækið Rafeyrir með 11% hlut, Norðurorka hf. með 4,5% hlut. Þá eiga félögin N10 ehf., í eigu Kristins H. Svanbergssonar, og Vað ehf., í eigu Sigrúnar Vésteinsdóttur og Sigurðs Birkis Sigurðssonar, hvor um sig 3,01%‏ hlut.

Stærstu hluthafar Skógarbaða í árslok 2024

Hluthafi Eignarhlutur
N10b ehf. 57,7%
Bjarnason Holding ehf. 20,4%
Rafeyri ehf. 11,3%
Norðurorka hf. 4,5%
N10 ehf. 3,0%
Vað ehf. 3,0%

Hóteluppbygging framundan

Skógarböðin, sem opnuðu í maí 2022, hafa notið mikilla vinsælda. Unnið er að því að stækka laugina og áformað er að reisa 120 herbergja hótel með heilsulind, veitingaaðstöðu og ráðstefnusal við hlið hennar. Gert er ráð fyrir að verklok vegna hóteluppbyggingarinnar verði á árinu 2027 og mun þá fjöldi ársstarfa við Skógarböðin verða um 120 talsins.

Íslandsbanki veitti Skógarböðum nýlega framkvæmdalán til fjármögnunar á hótelverkefninu. Í tilkynningu á vef bankans kom fram að hluthafar félagsins hyggist ekki greiða út arð úr rekstri Skógarbaða næstu árin heldur eigi arðsemi rekstursins að renna í hótelverkefnið.

Finnur Aðalbjörnsson, sem stofnaði félagið ásamt eiginkonu sinni Sigríði Maríu Hammer, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið árið 2023 að með uppbyggingu hótelsins sé m.a. horft til þess að fjölga gistirýmum á Norðurlandi. Það gæti t.d. stuðlað að bættum forsendum fyrir millilandaflug til Akureyrar.

Skógarböðin opnuðu í maí 2022.
© Axel Þórhallsson (Axel Þórhallsson)