Sjávarsýn, fjárfestingafélag Bjarna Ármannssonar, keypti 27 milljónir að nafnverði í Vátryggingafélagi Íslands, VÍS, í síðasta mánuði og fer nú með 6,4% hlut í VÍS, samanborið við 5,0% í lok febrúar, samkvæmt uppfærðum hluthafalista. Miðað við meðalgengi VÍS í síðasta mánuði má ætla að Sjávarsýn hafi fjárfest fyrir hálfan milljarð í VÍS í marsmánuði.

Alls fer Sjávarsýn nú með 122 milljónir að nafnverði í VÍS sem er 2,26 milljarðar króna að markaðsvirði.

Sjávarsýn er stærsti hluthafi Iceland Seafood International (ISI) með 10,8% hlut en Bjarni er forstjóri félagsins. Markaðsvirði eignarhlutar Sjávarsýnar í ISI nemur 3,8 milljörðum króna í dag.

Sjávarsýn minnkaði hlut sinn í Festi um 500 þúsund að nafnverði á milli mánaða. Miðað við meðalgengi Festi í síðasta mánuði má gera ráð fyrir að söluandvirðið hafi numið tæplega 120 milljónum króna. Sjávarsýn er þó enn meðal 20 stærstu hluthafa Festi og fer nú með 1,55% hlut í félaginu að markaðsvirði 1,2 milljarðar króna.