Ný steypustöð BM Vallár í Reykjanesbæ verður tekin í notkun í haust en með henni mun fyrirtækið auka umtalsvert þjónustustig sitt við byggingariðnaðinn á Suðurnesjum ásamt því að styðja við þá uppbyggingu sem fram undan er á svæðinu.
Í tilkynningu segir að stöðin, sem kemur frá þýska framleiðandanum Nisbau, sé hönnuð með áherslu á gæði, skilvirkni og háþróaða framleiðslutækni.
„Við höfum lengi fengið hvatningu og ábendingar frá samstarfsaðilum og áhugasömum aðilum um að koma okkur fyrir á Suðurnesjum og nú svörum við því kalli. Við sjáum mikla möguleika í framtíðarþróun á svæðinu og hlökkum til að taka þátt í uppbyggingunni,“ segir Emil Austmann Kristinsson, framkvæmdastjóri sölusviðs BM Vallár.
Í stöðinni verður endurvinnslustöð sem kemur til með að endurvinna afgangssteypu og allt skolvatn sem fellur til úr framleiðslunni. Stöðin verður einnig útbúin hitunarkerfi, gufukatli, sem gengur bæði fyrir dísilolíu og metangasi frá Sorpu.