Skattstofn fasteignasala til tekjuskatts hækkaði nýverið um 7,7 milljón krónur vegna afnota hans af BMW X5 bifreið sem hann hafði umráð yfir hjá einkahlutafélagi sínu. Þetta er niðurstaða yfirskattanefndar sem staðfestir með því úrskurð Skattsins. Maðurinn hafði byggt á því að hann hefði notað bifreiðina í tengslum við starf sitt en ekki var fallist á það.
Umræddur fasteignasali var launþegi hjá félagi en átti til viðbótar einkahlutafélag. Það félag keypti árið 2016 umrædda BMW bifreið en í málinu lá fyrir að starfsemi félagsins, sem annaðist byggingarstarfsemi og fasteignasölu, var afar takmörkuð. Eigandi félagsins var að auki í fullu starfi hjá öðru félagi árin 2017-19 og haft í gegnum það afnot af bifreið.
Í nóvember 2019 spurðist Skatturinn um BMW-inn og benti á að ef eigandi félagsins hefði haft ótakmörkuð umráð hennar, án þess að það væri í beinum tengslum við reksturinn, þá bæri að telja honum það til tekna sem starfstengd hlunnindi.
Í svarbréfi mannsins kom fram að bifreiðin hefði eingöngu verið nýtt í þágu rekstrar félagsins og lagði hann fram Excel-skjöl, sem sýndu helstu ferðir, því til stuðnings.
Fasteignasalar þurfi að keyra mikið
Á þetta féllst Skatturinn ekki meðal annars sökum þess að fáir reikningar væru til til að styðja upplýsingarnar í Excel-skjalinu. Þá hafði bifreiðinni verið ekið um 22 þúsund kílómetra á árunum 2017 og 2018 en á sama tíma hefðu einu tekjur félagsins, 787 þúsund krónur, stafað frá einum aðila og lent á einu virðisaukaskattstímabili. Gæti það ómögulega útskýrt eknar vegalengdir. Voru skattskyld hlunnindi metin 3,2 milljónir fyrra árið og 2,9 milljónir hið síðara en ofan á það bættist 25% álag.
Þessu vildi fasteignasalinn ekki una og kærði málið til yfirskattanefndar. Benti hann á að störf fasteignasala krefðust oft mikils aksturs og það ætti sérstaklega við í hans tilfelli. Nauðsynlegt væri að sýna fasteignir og oft þyrfti að keyra langar vegalengdir. Tekjur og gjöld félagsins hefðu síðan ekkert með bifreiðina að gera.
„Til stuðnings þeirri staðhæfingu sinni að bifreiðin Z hafi alfarið verið notuð í þágu rekstrar X ehf. hefur kærandi vísað til skráningar í dagbækur þar sem færður hafi verið akstur í þágu félagsins, en auk ekinna kílómetra er í bókum þessum og í yfirliti sem kærandi hefur fært á grundvelli þeirra tiltekið í mörgum tilvikum – en þó alls ekki öllum – hvert var ekið og tilefni aksturs, en þegar slíkar skýringar koma fram eru þær þó jafnan með almennum hætti, svo sem „Vinna vegna B“, „Opin hús ofl“ og „Fasteignasala“. Taka verður undir það með ríkisskattstjóra að það dregur verulega úr þýðingu þessarar akstursskráningar kæranda að hún er án tengingar við einstaka viðskiptavini eða útgefna reikninga og ber enga staðfestingu þriðja aðila,“ segir í úrskurði nefndarinnar.
Var það mat hennar að fasteignasalinn hefði haft full og ótakmörkuð umráð bifreiðarinnar og bæri að ákvarða honum skattskyld hlunnindi í samræmi við það. Enginn ágreiningur var um fjárhæð þeirra og niðurstaða Skattsins því staðfest.