Meirihluti borgarstjórnar samþykkti í gær 40% hækkun bílastæðagjalda á gjaldsvæði 1 í miðborg Reykjavíkur. Jafnframt verður gjaldskyldutími lengdur til klukkan 21 á virkum dögum og laugardögum á gjaldsvæðum 1 og 2.

Tillaga meirihlutans var samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í gær, og send með flýtimeðferð á fund borgarráðs í dag, þar sem hún var staðfest.

Núgildandi gjaldskrá gjaldsvæðis 1 er 430 krónur á klukkustund en með breytingunni hækkar gjaldskráin í 600 krónur á klukkustund.

Þá verði einnig tekin uppgjaldskylda á sunnudögum á gjaldsvæðum 1 og 2 en hingað til hafa sunnudagar verið undanþegnir gjaldskyldu.

Fram kemur í tilkynningu sem Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sendi Viðskiptablaðinu að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfðu lagt til að tillagan yrði kynnt fyrir samtökum rekstraraðila í miðborginni og viðkomandi íbúasamtökum og íbúaráðum áður en hún yrði tekin til endanlegrar afgreiðslu.

Meðal breytinga sem taka í gildi eru

Að gjald á gjaldsvæði P1 verði 600 kr/klst og hámarkstími verði 3 klst.

Að gjaldskyldutími á gjaldsvæðum P1 og P2 verði til klukkan níu á kvöldin, virka daga.

Að gjaldskyldutími á gjaldsvæðum P1 og P2 verði til klukkan níu á kvöldin, á laugardögum.

Að gjaldskylda verði á gjaldsvæðum P1 og P2 verði milli klukkan 10 á morgnanna og níu á kvöldin, á sunnudögum.

Að ekki verði gjaldskylda á gjaldsvæði P3 á laugardögum.