Byggingarfélag Gylfa og Gunnars, BYGG, hagnaðist um 379 milljónir króna á árinu 2024 samanborið við 1.055 milljóna króna árið 2023.

Stjórn félagins lagði til við aðalfund að ekki verði greiddur arður til hluthafa á árinu 2025 vegna ársins 2024, að því er kemur fram í nýbirtum ársreikningi.

Tekjur félagsins drógust saman um 30% milli ára og námu 7,6 milljörðum króna. Félagið rekur samdráttinn til þess að minna var selt og afhent af íbúðum en á árinu 2023.

Rekstrargjöld námu 6,9 milljörðum króna, þar af voru laun og tengd gjöld tæpir 2,3 milljarðar. Ársverk voru 165 samanborið við 162 árið áður.

Rekstrarhagnaður (EBIT) nam 653 milljónum króna í fyrra, en tæplega 2 milljörðum króna árið áður.

Á síðasta ári seldi samstæðan og afhenti fasteignir meðal annars í Hlíðarhverfi í Reykjanesbæ, Naustavör í Kópavogi og Nónhamar - Hringhamar í Hafnarfirði.

Auk framangreindra verkefna hélt samstæðan áfram framkvæmdum á ýmsum staðsetningum meðal annars að Bolholti og Fossvogsvegi í Reykjavík, Naustavör í Kópavogi, við Hjallabraut, Ásvelli og Álfhellu í Hafnarfirði. Einnig héldu framkvæmdir áfram við Hlíðarhverfi í Reykjanesbæ.

Stjórn félagsins segir verkefnastaða BYGG í árslok 2024 hafa verið nokkuð sterka og höfðu verkbirgðir aukist talsvert frá fyrri ári vegna framkvæmda ársins umfram sölu og afhendingu íbúða.

„Fyrirséð er að samstæðan haldi áfram að ljúka verkefnum til sölu og afhendingar á næstu misserum til dæmis námu seldar en óafhentar íbúðir 2.068 millj. kr. árslok. Almennt eru horfur á byggingarmarkaði ágætar sé horft til upplýsinga um nýjar íbúðir sem nú þegar eru í byggingu og eða fyrirséð að fari í bygginu á næstu misserum.“

Eignir BYGG námu 28,5 milljörðum króna í árslok 2024, en þar af voru verkbirgðir 17,3 milljarðar. Eigið fé félagsins nam 12,4 milljörðum króna.

BYGG er í eigu Gylfa Ó. Héðinssonar og Gunnars Þorlákssonar.

Lykiltölur / BYGG

2024 2023
Tekjur 7.567 10.835
Rekstrarhagnaður 653 1.987
Hrein fjármagnsgjöld 504 896
Afkoma 379 1.055
Eignir 28.509 23.380
Eigið fé 12.396 12.146
Ársverk 165 162
- í milljónum króna.