Það dró úr hækkun byggingarkostnaðar milli mánaða samkvæmt vísitölu byggingarkostnaðar sem Hagstofan birti í morgun.
Vísitalan hækkaði um 0,1% milli ágúst- og september og stendur nú í 115,6 stigum. Mun það vera minni hækkun en milli júlí og ágúst þegar vísitalan hækkaði um 0,3%.
Kostnaður við innflutt efni dróst saman um 1,6% en kostnaður við innlent efni jókst um 0,8%. Þá jókst launakostnaður um 0,2% og kostnaður við vélar, flutning og orkunotkun um 0,1%.
Samkvæmt Samtökum iðnaðarins hafa byggingarfyrirtæki verið að einblína á að klára verkefni á þriðja og fjórða framvindustigi meðan færri ný verkefni eru að fara af stað.
Hæg sala íbúða og hærri fjármagnskostnaður hefur aukið skuldsetningu í greininni en skuldir byggingarfyrirtækja hjá íslensku bönkunum jukust um 28% sl. 12 mánuði.