Efnafólk sem búsett er í Kína reynir nú í auknum mæli að yfirgefa landið í kjölfar lokunar Sjanghæ, en mikil gremja er meðal almennings vegna svokallaðrar núll-Covid stefnu stjórnvalda.

Ráðgjafar sem aðstoða fólk við að flytja úr landi hafa vart undan eftir að stjórnvöld settu á strangar takmarkanir í borginni í kjölfar aukins fjölda Omicron smita, segir í frétt Financial Times . Þá segja þeir að fólk sem hafi verið búið að fresta brottför úr landinu, vegna ótta við að smitast af veirunni eða af ótta við að mæta óvild erlendis, sé farið að endurvekja þau áform sín.

Reiði vex á meðal íbúa Sjanghæ vegna takmarkananna en í liðinni viku brutust út mótmæli í borginni. Margir íbúar eiga erfitt með að nálgast helstu nauðsynjar svo sem matvöru og lyf. Þá hefur gagnrýni á sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda ekki fengið að lifa lengi á netinu því kínversk stjórnvöld hafa aukið við áróður sinn fyrir núll-Covid stefnunni.

Einungis 38% af íbúum Sjanghæ sem eru eldri en 60 ára eru full bólusettir. 350 þúsund smit hafa verið staðfest í Sjanghæ frá því í mars en sérfræðingar hafa efast um áreiðanleika opinberu gagnanna. Stjórnvöld tilkynntu í dag að þrjár manneskjur níræðis- og tíræðisaldri, með undirliggjandi sjúkdóma, hefðu dáið um helgina af völdum farsóttarinnar. En það eru fyrstu dauðsföllin af völdum farsóttarinnar í borginni síðan þessi bylgja hófst.