Fjórir stærstu eigendur rafverktakafyrirtækisins Rafholts voru samanlagt með tæplega 1,7 milljarða í fjármagnstekjur í fyrra. Framtakssjóðurinn Aldir I slhf. keypti 70% hlut í fyrirtækinu í fyrra en stofnendurnir og lykilstarfsmenn héldu eftir 30% hlut.

Vilhjálmur Magnús Vilhjálms, sem fór með 30% hlut áður en Aldir komu inn í hluthafahópinn, var með 558 milljónir króna í fjármagnstekjur. Helgi Ingólfur Rafnsson, sem einnig fór með 30% hlut, var með 553 milljónir.

Grétar Magnússon, sem fór með 20% hlut, var þá með 375 milljónir í fjármagnstekjur og Borgþór Grétarsson, sem fór með 10% hlut, var með 183 milljónir.

Ársreikningur Rafholts fyrir árið 2024 hefur ekki verið birtur en árið 2023 velti fyrirtækið tæplega fjórum milljörðum króna og hagnaðist um 351 milljón. Eignir félagsins voru bókfærðar á 976 milljónir í árslok 2023 og eigið fé nam 631 milljón. Stjórn lagði til að 335 milljónir króna yrðu greiddar í arð til hluthafa í fyrra vegna rekstrarársins 2023.

Listi yfir 150 tekjuhæstu Íslendinganna birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast listann í heild hér.

Listinn byggir á útreikningi samkvæmt álagningarskrá ríkisskattstjóra. Um er að ræða skattskyldar fjármagnstekjur þ.e. vaxta- og leigutekjur, arðgreiðslur, söluhagnað og eftir atvikum höfundarréttargreiðslur.