Hlutabréfaverð Eimskips hefur fallið um 4,6% í yfir hundrað milljóna króna veltu frá opnun Kauphallarinnar í morgun og stendur í 330 krónum á hlut þegar fréttin er skrifuð. Flutningafyrirtækið birti uppgjör fyrir annan ársfjórðung eftir lokun markaða í gær.
Gengi Eimskips hefur fallið um 14,5% í ár.
Hagnaður Eimskips á öðrum ársfjórðungi dróst saman um 43% frá sama tímabili í fyrra. Þá drógust tekjur félagsins saman um 2,9% milli ára.
Í uppgjörstilkynningu Eimskips segir að fjórðunginn í alþjóðlegri flutningsmiðlun félagsins hafi verið litaður af mikilli lækkun á alþjóðlegum flutningsverðum og óvissu vegna samningaviðræðna um tolla á inn- og útflutning Bandaríkjanna sem hafði áhrif á afkomu þessarar starfsemi félagsins.
Úrvalsvísitalan hefur fallið um 0,3% í 1,3 milljarða króna veltu það sem af er degi. Ellefu félög hafa lækkað og fjögur hafa hækkað.