Hluta­bréfa­verð Eim­skips lækkaði um 3,5% í um 126 milljón króna við­skiptum í dag. Dagsloka­gengi gáma­flutningafélagsins var 334 krónur á hlut.

Hluta­bréfa­verð féalgsins hefur nú lækkað um rúm 10% á árinu. Eim­skip birti upp­gjör fyrir annan árs­fjórðung eftir lokun markaða í gær.

Hagnaður Eim­skips á öðrum árs­fjórðungi dróst saman um 43% frá sama tíma­bili í fyrra. Þá drógust tekjur félagsins saman um 2,9% milli ára.

Í upp­gjör­stil­kynningu Eim­skips segir að fjórðungurinn í alþjóð­legri flutnings­miðlun félagsins hafi verið litaður af mikilli lækkun á alþjóð­legum flutnings­verðum og óvissu vegna samninga­viðræðna um tolla á inn- og út­flutning Bandaríkjanna sem hafði áhrif á af­komu þessarar starf­semi félagsins.

Hluta­bréfa­verð Kaldalóns lækkaði um rúm 3% í við­skiptum dagsins og lokaði gengið í 24,2 krónum.

Þá fór gengi málm­leitarféalgsins Amaroq niður um 3% í 59 milljón króna veltu en gengi félagsins hefur nú lækkað um 41% á árinu. Dagsloka­gengi Amaroq var 107 krónur á hlut og hefur ekki verið lægra síðan í septem­ber í fyrra.

Gengi Skaga lækkaði síðan um 2,6% í 114 milljón króna við­skiptum og lokaði gengið í 18,7 krónum á hlut.

Úr­vals­vísi­talan lækkaði um 0,47% og var heildar­velta á markaði 3,2 milljarðar.