Einokun stóru tæknifyrirtækjanna var mótmælt í Washington D.C. í gærkvöldi með því að varpa á byggingar skilaboðunum: „Einokunin verður að fara." Mótmælin voru hluti af herferð sem kallast einfaldlega Samkeppnisdagurinn þar sem þingmenn eru hvattir til þess að efla lagarammann í kringum tæknifyrirtækin. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg.
Spotify, Yelp og Match Group eru á meðal þeirra fyrirtækja sem hafa beðið notendur sína um að hvetja þingmenn til að samþykkja tvö frumvörp sem liggja fyrir þinginu og er ætlað að beisla þau völd sem stóru tæknifyrirtækin hafa í dag. Fyrra frumvarpið myndi opna veitur Apple og Google sem selja smáforrit en seinna frumvarpið kæmi í veg fyrir að fyrirtæki borð á við Amazon gætu nýtt sinn vettvang til að veita sínum eigin vörum forgang umfram aðrar vörur.
Samkvæmt frétt Bloomberg rennur tíminn til að koma svona stórum málum í gegnum þingið bráðlega út þar sem kosningabaráttan fyrir miðkjörtímabilskosningarnar í Bandaríkjunum fer að hefjast.
Hagsmunahópur á vegum tæknirisanna stóð því einnig fyrir herferð gegn frumvörpunum og kallaði gærdaginn: „Stöndum vörð um samkeppnisstöðu Bandaríkjanna-daginn". Síðar í vikunni mun annar hópur sem talar fyrir sömu hagsmunum hitta þingmenn til að andmæla nýju samkeppnislagafrumvörpunum.