Viðskiptaráð gerir Ríkisútvarpið (RÚV) að umfjöllunarefni í umsögn um frumvarp Lilju D. Alfreðsdóttur, menningar og viðskiptaráðherra, um fjölmiðlastyrki. Í greinargerð frumvarpsins er fjallað um krefjandi aðstæður fjölmiðla. Ráðið bendir þó á að ekki er minnst einu orði á RÚV og þeim vanda sem stjórnvöld skapi með eigin rekstri.
Áætlað sé að útvarpsgjald sem rennur til RÚV nemi 5,7 milljörðum króna á rekstrargrunni í ár. Framlagið hefur hækkað mikið undanfarin ár, bæði vegna ákvarðana um hækkun gjaldsins og fjölgunar greiðenda.
„Að mati ráðsins er ekki réttlætanleg forgangsröðun í ríkisfjármálum að halda áfram að auka framlög til málaflokksins án þess að breyta fyrirkomulagi markaðarins.“
Viðskiptaráð dregur fram þrjár leiðir til að ná fram helstu markmiðum frumvarpsins án þess að það komi niður á heilbrigði fjölmiðlamarkaðarins.
Í fyrsta lagi væri hægt að takmarka starfsemi RÚV á auglýsingamarkaði, að hluta eða alfarið. Í öðru lagi að leyfa útvarpsgjaldinu að renna að hluta til annarra fjölmiðla, jafnvel með þeim hætti að einstaklingar ákveði til hvaða miðils gjaldið rennur til. Í þriðja lagi mætti setja á fót samkeppnissjóð til að styðja við innlenda dagskrárgerð, þar sem RÚV myndi keppa um opinbert fjármagn á jafnræðisgrundvelli.
„Viðskiptaráð telur að aðgerðir ríkisins hafi skekkt rekstrar- og samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla og ekki sé lengur hægt að horfa framhjá þeim vanda sem umfang Ríkisútvarpsins skapar á fjölmiðlamarkaði.“
Ríkismiðlar almennt ekki á auglýsingamarkaði
Lilja hefur reglulega rökstudd styrkjakerfið með því að vísa til styrkjaumhverfis á Norðurlöndunum, þar sem veittir eru beinir og óbeinir ríkisstyrkir til fjölmiðla. Viðskiptaráð segir þó mikilvægt að hafa í huga að ríkisfjölmiðlar þar séu almennt ekki á auglýsingamarkaði líkt og RÚV hérlendis.
„Því er ekki að neita að fjölmiðlar hérlendis og erlendis eiga almennt í miklum rekstrarvanda vegna breyttrar fjölmiðlaneyslu og innkomu tæknirisa á auglýsingamarkaðinn. Viðskiptaráð telur þó að fyrst valið var að fara að fordæmi Norðurlandanna á annað borð hvað þessa styrki varðar, eigi einnig að tryggja hér sambærilega stöðu hvað varðar tilvist ríkismiðils á auglýsingamarkaði.“
Stjórnvöld ekki fylgt eftir ítrekuðum yfirlýsingum
Viðskiptaráð kallar einnig eftir því að staða innlendra og erlendra fjölmiðla verði jöfnuð. Skattleggja ætti erlendar efnis- og streymisveitur til samræmis við þær íslensku.
„Mörg Evrópuríki hafa gripið til ráðstafana vegna þessa en af einhverjum sökum hefur þessi vinna tafist á Íslandi, þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar stjórnvalda um að málið verði sett í forgang.“
Í umsögninni, sem Agla Eir Vilhjálmsdóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs skrifar undir, er bent á að heildargreiðslur vegna auglýsingakaupa árið 2021 námu 22 milljörðum króna. Þar af féllu 9,5 milljarðar í hlut erlendra miðla, eða 44%.
Fréttin birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út 12. janúar 2022.