Embla Medi­cal, móðurfélag Össurar, til­kynnti í dag um kaup á 51% hlut í þýska stoðtækja­fyrir­tækinu Streifene­der ort­ho.production GmbH eftir að þýskir eftir­lit­saðilar samþykktu við­skiptin.

Streifene­der fram­leiðir og dreifir stoð- og stuðningstækjum á alþjóða­markaði og hefur um 100 starfs­menn.

Sam­kvæmt til­kynningu Embla Medi­cal nam sala Streifene­der um 25 milljónum evra árið 2024, sem jafn­gildir um 3,7 milljörðum ís­lenskra króna.

Um 70% af tekjunum koma frá stoðtækjum, íhlutum þeirra og stuðnings­vörum. Meiri­hluti sölu fer fram í Þýska­landi, en fyrir­tækið starfar einnig á mörkuðum víða í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu.

Í tengslum við kaupin hefur stjórn Embla Medi­cal ákveðið að gefa út 2.805.135 nýja hluti í félaginu.

Heildar­hluta­fé hækkar þar með um 0,7%, úr 427,6 milljónum króna í 430,4 milljónir króna. Áskriftar­verð hvers hlutar er 33,26 danskar krónur og nemur virði hluta­fjáraukningarinnar 93 milljónum danskra króna eða um 12,5 milljónum evra.

Hlut­hafar Streifene­der munu skrá sig fyrir öllum nýju hlutunum.

Sveinn Sölva­son, for­stjóri Embla Medi­cal, segir kaupin mikilvæg fyrir frekari vöxt félagsins:

„Kaupin á Streifene­der falla vel að vaxtar­stefnu okkar og gera okkur kleift að ná til fleiri sjúklinga með breiðara vöruúr­vali og heildar­lausnum á stoðtækja­markaði. Auk þess styrkjum við stöðu okkar á lykilmörkuðum sem og nýjum markaðs­svæðum. Sam­eigin­legt vöru­fram­boð undir merkjum Össurar og Streifene­der mun nýtast bæði við­skipta­vinum og sjúklingum um allan heim.“