Meira en helmingur allra viðskipta dagsins í Kauphöll Íslands var með bréf í Kviku banka en gengi bréfanna hækkaði um 0,72% í 3,3 milljarða króna veltu. Er þetta annar dagurinn í röð sem viðskipti með bréfin eru áberandi fyrirferðarmikil en í gær var nær helmingur allra viðskipta með bréf Kviku. Bankinn birti uppgjör eftir lokun markaða í fyrradag.

Heildarvelta á aðalmarkaði nam 5,8 milljörðum króna í dag en úrvalsvísitalan OMXI10 lækkaði um 0,45% í viðskiptum dagsins og stendur fyrir vikið í 3.342,68 stigum.

Bréf Icelandair hækkuðu mest í viðskiptum dagsins, um 2,37% og stendur gengi á hlut nú í 1,73 krónum. Næstmest hækkaði gengi bréfa Festar, um 0,93%, og þá hækkaði gengi bréfa Haga um 0,79%.

Bréf Sýnar lækkuðu mest allra félaga á markaði í viðskiptum dagsins, um 3,42%. Þá lækkaði gengi bréfa Origo um 2,27% og gengi bréfa Eimskips um 2,21%.

Á eftir Kviku banka var mest velta með bréf Arion banka, rúm 731 milljón króna. Þá námu viðskipti með bréf Marel 332 milljónum króna.

Á First North markaði var velta mest með bréf í flugfélaginu Play en gengi bréfanna hækkaði um 0,40% í 42 milljóna króna viðskiptum. Kaldalón hækkaði um 1,10% í 7 milljóna króna viðskiptum og bréf Solid Clouds hækkuðu um 4,65% í 333 þúsund króna viðskiptum.