Bandarískur dómstóll hefur dæmt Epic Games, fyrirtækið sem framleiðir meðal annars vinsæla tölvuleikinn Fortnite, í vil gegn tæknirisanum Google fyrir ólöglega einokun.

Epic Games kærði Google árið 2020 og sakaði þá um að reka snjallforritaverslun (e. App Store) með ólöglegum hætti.

Google segist ætla að áfrýja dóminum en fleiri hundruð milljónir símanotenda notast við netverslun fyrirtækisins til að hlaða niður snjallforritum sem notast við Android-hugbúnað Google.

„Android og Google Play veita viðskiptavinum meira val en nokkurt annað farsímafyrirtæki. Þessi réttarhöld sýndu að við stöndum í harðri samkeppni við við Apple og snjallforritaverslun þess. Við munum halda áfram að verja Android og verðum skuldbundnir notendum okkar,“ segir Wilson White, varaforseti ríkismála hjá Google.

Úrskurðurinn gæti markað tímamót fyrir framleiðendur og hvernig snjallforritum þeirra er dreift. Ef hann stendur gæti Google einnig þurft að hleypa inn fleiri snjallforritaverslunum inn í Android-tækin sín.

Meðal þess sem Epic Games mótmælti var 30% viðskiptagjald sem Google leggur á framleiðendur og hvernig tæknirisinn tengir saman Play Store og innheimtunarþjónustu sem gerir það að verkum að framleiðendur þurfa að nota bæði til að viðhalda snjallforritum sínum í versluninni.