Samkvæmt tölum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar jókst erlend netverslun um 20,7% á fyrstu sex mánuðum þessa árs miðað við sama tímabil árið 2024. Netverslunin nam þá 15,8 milljörðum króna samanborið við 13 milljarða króna í fyrra.
RSV segir jafnframt að ef þróunin haldi áfram megi gera ráð fyrir því að erlend netverslun á árinu nái 36 milljörðum í lok árs.
Birtar hafa verið tölur fyrir júnímánuð en RSV tekur mánaðarlega saman tölur um erlenda netverslun Íslendinga. Þar má sjá enn meiri aukningu í erlendri netverslun eða um 28% aukningu miðað við sama tíma í fyrra.
Sé horft í aukningu frá síðasta mánuði nemur hún tæpum 6,8% en erlend netverslun í júní nam rúmum þremur milljörðum króna.