Bandaríski seðlabankinn hefur hafið lánveitingar til fyrirtækja sem þurfa tímabundna aðstoð sökum kórónufaraldursins, skilyrði fyrir lánveitingu er að reksturinn hafi verið góður fyrir áhrif COVID-19. Markmið átaksins, sem ber nafnið Main Street Lending Program, er að ná til fyrirtækja sem ekki geta fengið svokallaða PPP aðstoð (Paycheck Protection Program) sem sett var á laggirnar til þess að aðstoða fyrirtæki með undir 500 starfsmenn.

Lánað verður til fyrirtækja með undir 15.000 starfsmenn eða tekjur undir 5 milljarða dollara. Bankinn mun lána allt að 600 milljarða dala, andvirði um 81 billjón króna á núverandi gengi. Frá þessu er greint á vef Reuters.

Fram kemur að hægt verður að sjá hvaða fyrirtæki munu nýta sér aðstoðina, upphæð sem félagið fær lánað og hvaða lánskjör þeim býðst auk annarra upplýsinga. Enn fremur munu fyrirtæki sem nýta sér aðstoðina mæta takmörkunum hvað varðar þóknun til stjórnenda, kaup á eigin bréfum og arðgreiðslur.