Kona sem lenti í slysi á línuskautum á rétt á bótum úr starfsábyrgðartryggingu tveggja lögmanna sem vanræktu að sækja mögulegar bætur vegna slyssins. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar í vátryggingamálum.
Konan hafði verið á skautunum í júní 2017 en féll og hlaut af því slæmt brot á úlnlið. Taldi hún að meðferð sem hún fékk í heilbrigðiskerfinu hefði ekki verið eins og best verður á kosið og leitaði hún því til lögmannsstofu með það að marki að sækja bætur vegna læknamistaka. Lögmennirnir bentu henni aftur á móti á að hún kynni að eiga sjálfstæðan bótarétt vegna slyssins.
Í kjölfar þess veitti hún lögmannsstofunni umboð til að sækja bætur, gagnvart hverjum þeim sem málið kann að beinast að, „vegna frítímaslyss“ sem hún varð fyrir. Lögmennirnir tilkynntu slysið til tryggingafélags konunnar og fékk hún greitt úr heimilistryggingu sinni vegna þess. Aftur á móti var engin krafa gerð í slysatryggingu launþega.
Ári eftir umrætt bótauppgjör uppgötvaði konan að samkvæmt kjarasamningi sínum tryggði slysatrygging launþega hana gagnvart tjóni sem af hlytist af slysum í frítíma hennar. Gerði hún kröfu í þá tryggingu en var hafnað á þeim grunni að meira en ár væri liðið frá stöðugleikapunkti og því væri bótaréttur niður fallið.
Bar að kanna launþegatrygginguna
Að mati konunnar höfðu lögmennirnir ekki sinnt starfi sínu nægilega vel og gerði hún því kröfu um að fá greitt úr starfsábyrgðartryggingu þeirra. Vátryggingafélag þeirra hafnaði aftur á móti kröfunni á þeim grunni að umboð hennar hefði aðeins náð til frítímaslysatrygginar en ekki slysatryggingar launþega auk þess að hún hefði ekki upplýst lögmennina um að slík trygging væri í gildi. Ekki hefði verið sanngjarnt að ætla að þeir hefðu því vitneskju um trygginguna.
Við mat á því hvort lögmennirnir hafi sýnt af sér saknæma háttsemi við störf sín fyrir [konuna] verður að líta til þess að lögmenn eru sérfræðingar í innheimtu bóta og að um þá gilda reglur um sérfræðiábyrgð. Í því fellst að gera verður ríkari kröfur til þeirra en ella. Með hliðsjón af framangreindu að teknu tilliti til þess að lögmennirnir höfðu umboð frá [henni] til að innheimta bætur vegna slyssins verður að líta svo á að almennt hafi [hún] mátt gera þær kröfur til þeirra að þeir myndu kanna hvort slysatrygging hennar sem launþega næði einnig til slysa í frítíma,“ segir í úrskurðinum.
Að mati nefndarinnar var því sannað að lögmennirnir hefðu sýnt af sér vanrækslu við störf sín og að það hafi leitt til fjárhagslegs tjóns fyrir konuna. Var því fallist á að hún ætti rétt til bóta úr starfsábyrgðartryggingunni.