Kona sem starfaði í Orkuveituhúsinu á ekki rétt til bóta úr ábyrgðartryggingu vinnuveitanda síns vegna atvinnusjúkdóms sem hún hafði orðið fyrir vegna myglu í húsnæði OR. Að mati úrskurðarnefndar í vátryggingamálum vantaði talsvert upp á að hún hefði sannað tjón sitt.

Konan hóf störf hjá vinnuveitanda sínum vorið 2014 en aðsetur hans var í húsnæði OR. Sem kunnugt er reyndist það ekki tryggilega byggt svo að mygla náði að grassera í húsinu um árabil. Eftir að hafa starfað þar í tæp tvö ár fór konan að finna fyrir ýmsum einkennum. Þar á meðal má nefna hausverk, augnþurrkur, hæsi, raddleysi, bólgur í kinn- og ennisholum, hjartsláttartruflanir og þyngri lund.

Í málinu lá fyrir að ákveðið hafði verið að rýma húsið vegna slæmra áhrifa myglunnar á heilsufar starfsfólks. Flutningar úr húsinu höfðu þau áhrif að einkenni konunnar minnkuðu en þau blossuðu síðan upp á ný þegar dreginn var fram kassi af jólaskrauti sem brúkaður hafði verið í Orkuveituhúsinu.

Konan taldi að rekja mætti heilsubrest sinn til ástands hússins og benti á að fyrir lægi minnisblað stjórnar OR um að rakaskemmdir hefðu áhrif á heilsu þeirra sem í húsinu störfuðu. Stjórnendur vinnuveitanda hennar hafi verið meðvitaðir um þetta og vitað af þessu en ekki aðhafst nægilega í málinu.

Vátryggingafélagið byggði á móti á því að ekki væri sannað að vinnuveitandi hennar hafi brugðist við með sakæmri og ólögmætri háttsemi. Konan hafi fengið að vinna heima hjá sér um nokkurt skeið og þá hefði félagið flutt starfsemi sína eins hratt og unnt var. Enn fremur taldi félagið vafamál að rekja mætti heilsubrestinn til myglunnar.

Að mati úrskurðarnefndarinnar hafði konan skilað takmörkuðum gögnum til sönnunar á samskiptum sínum við sína yfirmenn auk þess að ekki lá fyrir í málinu hvenær þeir vissu hvað um ástand hússins. Var bent á það að í fyrrnefndu minnisblaði stjórnar OR hafi ekkert verið rætt um upplýsingagjöf til leigutaka í húsinu.

„Þegar gögn af þessu tagi vantar í mál þar sem því er haldið fram að einhver hafi vanrækt skyldur sínar verður sönnunarstaða þess sem gerir skaðabótakröfu á þeim grundvelli erfið. Eins og málið liggur fyrir nefndinni telur hún að ekki liggi fyrir nægilega skýr sönnunargögn um að samstarfsmenn eða eigendur [félagsins] hafi brugðist þannig við upplýsingum um rakaskemmdir í leiguhúsnæði sínu að saknæmt teljist,“ segir í niðurstöðu nefndarinnar.

Þar sem sönnun tókst ekki var kröfu konunnar hafnað.