Gengi 12 af 20 félögum á aðalmarkaði hækkaði í viðskiptum dagsins. Fjarskiptafélagið Sýn hækkaði mest allra félaga, annan daginn í röð, eða um 1,8% í 40 milljóna viðskiptum. Kvika banki hækkaði einnig um 1,75% í 400 milljón króna viðskiptum.

Gengi fasteignafélaganna Regins, Reita og Eikar hækkaði í viðskiptum dagsins og hefur í raun aldrei verið hærra en í dag. Reginn hefur hækkað um 21% á árinu, Reitir um 24% og Eik um 32%. OMXI10 úrvalsvísitalan hækkaði jafnframt um 0,64% í viðskiptum dagsins.

Heildarvelta á markaðnum nam 4,4 milljörðum króna. Mest velta var með bréf Arion banka, en viðskipti með bréfin námu 1,1 milljörðum króna. Velta með Marel og Festi var um hálfur milljarður króna.

Einungis tvö félög lækkuðu á aðalmarkaði í viðskiptum dagsins, Íslandsbanki og Origo. Gengi bréfa Íslandsbanka lækkaði um 0,8% í 160 milljón króna viðskiptum en Origo um 0,35% í óverulegum viðskiptum. Á First North markaðnum lækkaði Play um 0,8% í 2 milljóna viðskiptum.