„Ég fékk ekki 1 kr. í kaupaukagreiðslu frá Kviku & borgaði fyrir mína eigin fjárfestingu í félaginu takk fyrir mig,“ skrifar Kristrún Frostadóttir, fyrrverandi aðalhagfræðingur Kviku banka og oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður, í þræði á Twitter-síðu í dag .

Tilefni skrifanna virðist vera umfjöllun Viðskiptablaðsins í gær um könnun skattyfirvalda á eldra áskriftarréttindakerfi bankans. Til könnunar er hvort greiða hafi átt almennan tekjuskatt af kaupréttum eða hvort greiða skuli af þeim fjármagnstekjuskatt. Í framkvæmd hefur verið miðað við að séu áskriftarréttindi veitt í tengslum við starf þá beri að greiða af þeim tekjuskatt.

Rétt er að geta þess að Viðskiptablaðið hefur frá síðastliðnum miðvikudegi reynt að ná á Kristrúnu Frostadóttur, bæði með símtölum og með smáskilaboðum. Engin svör hafa borist en Kristrún tjáir sig um málið á Twitter í dag.

„Samantekin ráð virðast nú vera hjá MBL og Viðskiptablaðinu að gefast upp á að ræða um mína pólitík á efnislegum grunni og reyna nú bara að keyra konuna niður með smjörklípum, óhróðri, gera lítið úr jafnaðarmannaskoðunum mínum,“ segir í fyrsta tístinu af sautján. Fréttablaðið fjallaði einnig um málið .

Tugmilljóna hagnaður af réttindunum

Í þræðinum segir enn fremur að þegar hún hóf störf hjá Kviku hafi hún sett „stóran hluta af persónulegum sparnaði mínum & mannsins míns“ í téð áskriftarréttindi. Ekki er tekið fram um hve stóran hlut er að ræða en af uppgjörum og útboðslýsingu Kviku má ráða að áskriftarréttindi fyrir 22 milljón nafnverðshlutum, þrír skammtar upp á 7,3 milljónir hluta hver, hafi verið gefin út í sama mánuði og Kristrún hóf störf. Kaupverð fyrir réttindin var þriðjungur af nafnvirði.

Réttindin veittu heimild til að kaupa bréf í bankanum á verðbilinu 7,83-9,04 og var fyrst hægt að nýta þau í desember 2019. Hluta þeirra mátti aftur á móti ekki nýta fyrr en í desember 2021. Síðan bankinn var skráður hefur gengi hans hækkað um nærri 200%. Sé miðað við kauprétt að 7,3 milljón nafnverðshlutum, hæsta mögulega kaupverð réttindanna og lægsta mögulega innlausnargengi nemur hagnaður af réttinum ríflega 50 milljón krónum. Sé aftur á móti miðað við hæsta mögulega sölugengi er hagnaðurinn yfir 100 milljónir króna. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að í tilfelli Kristrúnar sé fjárhæðin tæplega 100 milljónir.

„Viðskiptablaðið reynir í nýlegri umfjöllun í aðdraganda kosninga að tengja saman tvö ólík mál sem snúa að rannsókn á Kviku og mínum kaupum í bankanum. Mín kaup eru ekki til rannsóknar, þessi fjárfesting, né ég. Þetta hefur nákvæmlega ekkert með mig að gera,“ segir Kristrún.

Þar segir enn fremur að hún hafi „borgað sína skatta af þessari skráðu fjárfestingu sem [hún] borgaði fyrir og er í raun ekki í stöðu til að ákvarða hversu mikla skatta ég greiði af því.“ Ekki kemur fram með afdráttarlausum hætti hvort þar hafi verið á ferð almennt tekjuskattþrep eða fjármagnstekjuþrep.

Blæbrigðamunur á kerfunum

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að meginmunurinn nýrri áskriftarréttindunum og þeim sem eru til skoðunar Skattsins sé sá að hin nýrri séu framseljanleg auk þess að stærri hópur starfsfólks fékk þau afhent. Því séu þau frábrugðin eldri skattframkvæmd þar sem talið var að kaupaukar hefðu verið klæddir í búning verðbréfaviðskipta. Þá er einnig rétt að geta þess að blæbrigðamunur getur verið á því hvað FME álítur kaupauka og hvað skattyfirvöld telja kaupauka.

„Þetta er algjör lágkúra í fjölmiðlun og ástæðan fyrir því að margt ungt fólk veigrar sér við pólitískri þátttöku. Svona fréttamennska er bara til þess fallin að kúga fólk frá lýðræðislegri þátttöku. Ég ætla ekki að leggjast flöt fyrir þessu, þið getið gleymt því,“ segir Kristrún í niðurlagi þráðarins.