Í byrjun síðasta árs ákvað smásölufyrirtækið Festi að færa allan fasteignarekstur samstæðunnar undir dótturfélagið Yrki, sem hét áður Festi fasteignir. Markmiðið með breytingunni var að draga skýrar fram hlutverk og tækifæri fasteignafélagsins sem sjálfstæðrar rekstrareiningar.

Samstæðan hyggst m.a. leggja aukna áherslu á þróunarverkefni, hvort sem horft er til uppbyggingarverkefna eða þróunar á lóðum til breyttrar nýtingar.

Skýrt dæmi um hvað Festi horfir til með breyttri nálgun í fasteignarekstri eru nýleg kaup Yrkis á lóðarleigu- og byggingaréttindum við Urriðaholtsstræti 3-5 í Garðabæ fyrir 137,5 milljónir króna. Þar er stefnt að því að reisa Krónuverslun og skrifstofuhúsnæði innan fárra ára.

Óðinn Árnason, framkvæmdastjóri Yrkis, segir félagið opið fyrir því að taka að sér verkefni sem eru stutt á veg komin og koma þannig í auknum mæli að hönnun og þróun.

„Við erum tilbúin að stökkva á góð tækifæri snemma, tryggja okkur lóðir á lykilstaðsetningum, þróa þær áfram og fara sjálf í uppbyggingu.“

Undir Yrki eru ríflega hundrað fasteignir í eigu eða rekstri félagsins sem eru samtals tæplega 100 þúsund fermetrar að stærð. Leigutekjur félagsins námu 4,2 milljörðum króna í fyrra, en þar af voru um 80% frá félögum í samstæðu Festi. Fasteignasafn Festi var metið á tæpa 37 milljarða króna í lok síðasta árs.

„Styrkleikarnir okkar felast að miklu leyti í þessum öflugu rekstrarfélögum samstæðunnar – Krónunni, N1, Elko, Bakkanum vöruhóteli og Lyfju. Við hjá Yrki viljum þjónusta þau vel, aðstoða þau við að bjóða upp á nýjungar og jafnvel byggja ofan á það fyrir aðra aðila. Við finnum hvað aðdráttarafl okkar félaga er mikið. Það vilja margir starfa við hlið þeirra.“

Teikning af áformaðri uppbyggingu Yrkis á reitnum að Urriðaholtsstræti 3-5.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Fóru aðra leið en Hagar

Samkeppnisaðilinn Hagar fór þá leið með þróunareignir sem flokkuðust ekki sem hluti af kjarnastarfsemi félagsins að framselja þær til fasteignaþróunarfélagsins Klasa gegn þriðjungshlut í síðarnefnda félaginu.

Aðspurður segir Óðinn það hafa komið til greina hjá Festi að fara í samstarf við reynda aðila í fasteignageiranum um þróunareignir félagsins. Það hafi hins vegar orðið ofan á að þróa sjálf fasteignasafn samstæðunnar og nýta styrk sem felst í stuttum boðleiðum og öflugum innviðum innan Festi.

„Innan Yrkis er mikil þekkingu á fasteignarekstri og viljum við halda áfram að bæta á hana. Þetta er þekking sem verðmætt er að hafa innandyra. Við erum stöðugt að skoða ný tækifæri til að þróa safnið okkar áfram, t.d. með nýjum verslunum eða öðrum nýjum einingum.“

Fréttin er hluti af ítarlegu viðtali við Óðin í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær.