Tíu frambjóðendur munu berjast um tvö laus sæti í stjórn Almenna lífeyrissjóðsins sem kosið verður um í lok mánaðarins. Fráfarandi stjórnarmenn sóttust ekki eftir endurkjöri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sjóðnum.
Aðeins karlar gátu boðið sig fram í sætin þar sem stjórn sjóðsins er samkvæmt reglum hans skipuð þremur af hvoru kyni, og báðir fráfarandi stjórnarmenn eru karlar. Einnig verður kosið um eitt laust sæti í varastjórn, en þar gátu bæði kynin boðið sig fram. Kjörtímabil stjórnarmanna er þrjú ár.
Sjóðfélagar munu sjálfir kjósa í stjórnarsætin og fer kosningin fram rafrænt dagana 24. – 30. mars næstkomandi. Úrslitin verða svo kynnt á ársfundi sjóðsins þann 31. mars.
Frambjóðendur eru eftirfarandi í stafrófsröð:
- Albert Þór Jónsson , sjálfstætt starfandi við fjármál og fjárfestingar
- Árni Gunnarsson , fyrrverandi viðskiptastjóri
- Elmar Hallgríms Hallgrímsson , framkvæmdastjóri
- Frosti Sigurjónsson , ráðgjafi
- Helgi S. Helgason , fyrrverandi framkvæmdastjóri
- Kristinn Ásgeir Gylfason , lögfræðingur og persónuverndarfulltrúi
- Már Wolfgang Mixa , lektor í fjármálum
- Reynir Jóhannsson , forstöðumaður fjármála
- Viktor Ólason , framkvæmdastjóri
- Þórarinn Guðnason , hjartalæknir