Fjár­festar eru farnir að dæla milljörðum dollara í skrif­stofu­byggingar í New York að nýju eftir tveggja ára stöðnun á fast­eigna­markaði borgarinnar.

Lán til fast­eignaþróunar­aðila hafa aukist veru­lega að undan­förnu og benda sér­fræðingar á að aukin um­svif endur­spegli vaxandi trú á að endur­koma starfs­manna á skrif­stofur sé að rétta af markaðinum.

Sam­kvæmt gögnum Bank of America og upp­lýsingum sem Financial Times hefur undir höndum hafa eig­endur fjögurra skýja­kljúfa í borginni ný­lega aflað sér sam­tals 3 milljarða bandaríkja­dala í gegnum markað með veð­tryggð skulda­bréf (CMBS) til að endur­fjár­magna skuldir sínar.

Þar með hefur heildar­fjár­mögnun sem tengist skrif­stofu­húsnæði í New York á CMBS-markaði náð 11 milljörðum bandaríkja­dala það sem af er ári – það mesta frá 2021, áður en bandaríski seðla­bankinn hóf vaxta­hækkanir sínar.

Fjár­festar eru nú farnir að lána ekki aðeins til svo­kallaðra „trop­hy“-eigna heldur einnig til eldri skrif­stofu­bygginga sem áður þóttu áhættu­samar.

„Skrif­stofu­markaðurinn er að lifna við,“ sagði Mario Rivera, yfir­maður eigna­tryggðra skulda­bréfa hjá For­tress, og benti á að stefnu­breyting stór­fyrir­tækja í átt að meiri viðveru starfs­manna á skrif­stofum hefði breytt leiknum.

1345 Six­th Avenu­e.
1345 Six­th Avenu­e.

Meðal stærstu við­skiptanna að undan­förnu var 900 milljón dollara endur­fjár­mögnun Paramount á 1301 Six­th Avenu­e, heimili Crédit Agrico­le og Norton Rose.

Þá tryggði Black­stone sér 850 milljónir dollara í skulda­bréfaút­boði vegna 1345 Six­th Avenu­e, þar sem lög­manns­stofan Paul Weiss verður nýr leigjandi og mun greiða um 81 milljón dollara á ári í húsa­leigu.

Paramount á 1301 Six­th Avenu­e.
Paramount á 1301 Six­th Avenu­e.

Vorna­do, eig­andi höfuðstöðva App­le í New York, fékk 450 milljónir dollara í nýtt lán, og Durst-sam­steypan fékk 1,3 milljarða dollara fyrir gömlu Condé Nast-höfuðstöðvarnar á Times Square, nú með leigj­endur á borð við TikTok og lög­manns­stofuna Vena­ble.

Leigu­markaðurinn að styrkjast

Að sögn fast­eignaráðgjafans CBRE hefur fram­boð á skrif­stofurýmum í Mid­town Man­hattan minnkað, úr 18,2 pró­sentum í 15,5 pró­sent á einu ári.

Jafn­framt hefur um­ferð í neðanjarðar­lestum borgarinnar aukist og er nú 72 pró­sent af því sem hún var fyrir far­aldur.

Matt Salem, yfir­maður fast­eigna­lána hjá KKR, sagði að fjár­festar sæju lækkandi tómstæðu­hlut­fall og jákvæðar leigu­trendur.

KKR hefur sjálft keypt skrif­stofu­tengd skulda­bréf fyrir 400 milljónir dollara á árinu og benti Salem á að vá­tryggingafélög væru meðal stærstu kaup­endanna.

Þrátt fyrir aukið fjár­magn vara sér­fræðingar við því að ekki sé um al­gjöra endur­komu að ræða.

Nýju lánin eru aðal­lega til vel leigðra eigna í lykil­stöðum með traustum leigj­endum, en eldri byggingar utan mið­kjarna borgarinnar og eignir með mikið fram­boð af lausu rými glíma enn við erfið­leika.

Þar að auki eru lánin nú með lægri skuld­setningu en fyrir far­aldurinn og í mörgum til­vikum hafa fast­eignaþróunar­aðilar þurft að leggja fram meira eigið fé til að fá lán­veitingarnar í gegn.

„Þetta er saga um þá sem hafa og þá sem ekki hafa,“ sagði Ben Hunsa­ker hjá Beach Point Capi­tal.

„Sum svæði í Man­hattan eru orðin aðlaðandi aftur en tvær götur til hliðar getur staðan verið gjörólík.“