Fjárfestar hafa tapað milljörðum dollara á viðskiptum með bandarísk aurabréf (penny stocks) eftir að grunur styrktist um kerfisbundna markaðsmisnotkun, samkvæmt Financial Times.
Aðferðin, sem á ensku er kölluð „pump and dump“, felur í sér að verð bréfa í litlum félögum er blásið upp með áróðri á samfélagsmiðlum áður en aðilar með eigin hagsmuni selja sig út og skilja minni fjárfesta eftir með tjónið.
Sjö lítil kínversk félög, öll skráð á Nasdaq, misstu á örfáum dögum yfir 80% af markaðsvirði sínu í júlí.
Þar á meðal voru Concorde International, Ostin Technology og Pheton Holdings. Samkvæmt greiningarfyrirtækinu InvestorLink hurfu samtals 3,7 milljarðar dollara af markaðsvirði félaganna í kjölfar skyndilegs verðfalls.
Alríkislögreglan FBI greindi nýlega frá því að tilkynningum um svik tengd slíkum viðskiptum hefði fjölgað um 300% á einu ári.
Fórnarlömbin eru jafnt óreyndir fjárfestar sem reyndir markaðsaðilar sem hafa verið blekktir í lokaða WhatsApp-hópa eða á samfélagsmiðla þar sem svikarar þykjast vera lögmætir verðbréfamiðlarar eða þekktir greiningaraðilar.
InvestorLink hefur ítrekað varað við óeðlilegum viðskiptum með örfáar bandarískar skráningar og hefur meðal annars bent á samhæfða kynningu á Reddit og WhatsApp, þar sem notendur frá Rússlandi og Íran hafi komið að skipulagðri markaðsmisnotkun.
Í einu tilviki jókst virði lítils lyfjafélags um 60.000% á árinu áður en bréfin hrundu um rúmlega 80%.
Þrátt fyrir þessar viðvaranir hafa bæði Nasdaq og verðbréfaeftirlitið SEC hafnað beiðnum um skýringar.
Fjöldi kínverskra nýskráninga í Bandaríkjunum á síðustu tveimur árum hefur gert markaðinn viðkvæmari fyrir misnotkun og vakið spurningar um hvort eftirlitsaðilar hafi brugðist hlutverki sínu.