Kauphöllin í London hefur ákveðið að fjarlægja fjögur félög sem starfa að stærstum hluta í Rússlandi úr FTSE vísitölunum eftir að miðlarar neituðu margir hverjir að stunda viðskipti með hlutabréf félaganna. The Times greinir frá.

FTSE Russell, deildin innan London Stock Exchange Group sem heldur uppi vísitölunum, sagðist með þessu vera að bregðast við kalli frá markaðsaðilum og ráðgjöf frá ytri ráðgjafarnefndum.

Russell sagði jafnframt að getan til að kaupa eða selja hlutabréf þessara fjögurra félaga hafi verið „verulega takmörkuð þar sem stór alþjóðleg verðbréfafyrirtæki hafi ekki lengur stutt viðskipti með þessi verðbréf og fyrir vikið var ófullnægjandi seljanleiki og dýpt á markaðnum“.

Stálframleiðandinn Evraz, sem Roman Abamovich á stærstan hlut í, gullnámufyrirtækið Petropavlovsk, námufyrirtækið Polymetal og fasteignafélagið Raven Property Group verða öll fjarlægð út vísitölunum í næstu viku. Evraz og Polymetal voru tekin inn í FTSE 100 vísitöluna í árslok 2011. Félögin Petropavlovsk og Raven eru bæði hluti af FTSE 250 vísitölunni.

Sjá einnig: Roman fær 57 milljarða í arð

Hlutabréfaverð þessara fjögurra félaga, sem eru skráð í London Stock Exchange kauphöllina, hefur fallið um meira en 80% í ár. Á fimmtudaginn síðasta var stöðvað viðskipti með hlutabréf Evraz eftir að Abramovich var beittur viðskiptaþvingunum í Bretlandi. Enn er ekki búið að opna á viðskipti með bréf Evraz.