Nærri fjórðungur landsmanna, eða 24,5%, myndi kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef gengið yrði til kosninga í dag, samkvæmt nýrri könnun Maskínu. Fylgi flokksins fer vaxandi frá könnunum í janúar og febrúar er flokkurinn mældist með 20,1% fylgi (janúar) og 21,9% (febrúar).
Framsóknarflokkurinn kemur næstur með 17,2% fylgi. Í könnunum ársins hefur fylgið mælst á svipuðum slóðum, en í janúar var það 17,8% og 16,9% í febrúar. Píratar mælast með 13,7% fylgi og auka nokkuð við sig frá febrúarkönnuninni er fylgið mældist 10,3%, en mánuðinn áður mældist fylgið þó 13,5%.
Samfylkingin mælist svo með 12,1% fylgi, en í síðasta mánuði mældist flokkurinn með 13,4% fylgi. 9,3% þjóðarinnar myndi kjósa Vinstrihreyfinguna - Grænt framboð ef gengið yrði til kosninga í dag og 8,5% myndi kjósa Viðreisn. Flokkur fólksins mælist með 7,1% fylgi nú í mars. Loks reka Miðflokkurinn, með 4,3% fylgi, og Sósíalistaflokkurinn, með3,4% fylgi, lestina.
Miðað við ofangreint hlytu núverandi ríkisstjórnarflokkar, Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Vinstri Græn, rétt rúmlega helming (51%) atkvæða ef gengið yrði til kosninga í dag.
Ofangreind könnun var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá. Svarendur voru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Alls tóku 2.333 svarendur afstöðu til flokks.