Um 156 þúsund erlendir ferðamenn fóru um Keflavíkurflugvöll í febrúar en það samsvarar 14% fjölgun miðað við sama tímabil í fyrra. Þrátt fyrir þessa fjölgun jókst erlend kortavelta aðeins um 3,1% á föstu gengi samkvæmt greiningu Landsbankans.

Þeir ferðamenn sem nú koma virðast því eyða minna en þeir sem komu fyrir ári síðan.

Fram kemur að erlend kortavelta hafi dregist saman í desember og janúar þrátt fyrir fjölgun ferðamanna. Þá fækkaði skráðum gistinóttum um rúmlega 10% á milli ára, þó svo að ferðamönnum hafi fjölgað um rúmlega 8%.

Áhrif jarðhræringanna á Reykjanesskaga virðist ekki hafa haft mikil áhrif á fjölda þeirra ferðamanna sem hingað koma. Fækkun gistinátta gæti þó tengst jarðhræringum að einhverju leyti þar sem einhverjir ferðamannastaðir þurftu að skerða þjónustu sína í nálægð við eldsumbrotin.

„Önnur skýring gæti verið sú að fólk sé búið að svala mesta ferðaþorstanum í kjölfar Covid-faraldursins. Sem fyrr er þó varasamt að draga of sterkar ályktanir út frá þróun örfárra mánaða,“ segir jafnframt í greiningu.